Erlent

Obama segir neitun þings skapa hættulegt fordæmi

Atli Ísleifsson skrifar
Barack Obama Bandaríkjaforseti.
Barack Obama Bandaríkjaforseti. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir þingið í Washington hafi gert mikil mistök þegar þingmenn ákváðu að hunsa neitunarvald forsetans þegar kom að löggjöf um málsóknir vegna hryðjuverkanna 11. september 2001.

Nýju lögin sem nú hafa verið samþykkt gegn vilja forsetans ganga út á að hver sá sem missti ættingja í árásunum á Bandaríkin 2001 geti sótt yfirvöld í Sádí-Arabíu til saka fyrir meinta aðild að árásunum.

Obama segir að þetta muni skapa hættulegt fordæmi fyrir því að einstaklingar geti höfðað sambærileg mál gegn Bandaríkjunum. Þá segir hann þingmenn hafa stjórnast af því við atkvæðagreiðslu að stutt sé til kosninga og ekki sé líklegt til vinsælda að kjósa gegn máli sem þessu á slíkum tímapunkti.

„Þetta skapar hættulegt fordæmi og er dæmi um að stundum er nauðsnlegt að gera það sem er erfitt. Í sannleika sagt þá óska ég þess að þingið hefði gert það sem sé erfitt,“ segir forsetinn.

Yfirmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna, John Brennan, tekur í svipaðan steng og segir lögin geta haft grafalvarlegar afleiðingar í för með sér.

Fimmtán af nítján hryðjuverkamönnum sem þátt tóku í árásunum 2001, þar sem um þrjú þúsund fórust, voru Sádar. Stjórnvöld í Sádí-Arabíu hafa ætíð hafnað því að hafa átt aðild að árásunum, en ríkið hefur verið einn nánast bandamaður Bandaríkjanna í þessum heimshluta.

Samtök aðstandenda fórnarlamba hryðjuverkanna hafa fagnað ákvörðun Bandaríkjaþings.

Öldungadeild þingsins samþykkti lögin með 97 atkvæðum gegn einu, og fulltrúadeildin með 348 atkvæðum gegn 77.


Tengdar fréttir

Hafna neitun Obama

Báðar deildir bandaríska þingsins höfnuðu í gær neitun Obama um að skrifa undir lög sem myndu gera fjölskyldum fórnarlamba hryðjuverkaárásanna, sem gerðar voru þann 11. september 2011, kleift að kæra stjórnvöld í Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×