Svo gæti farið að landsliðsferli Iker Casillas væri lokið en hann var ekki valinn í spænska landsliðið fyrir fyrsta leik liðsins í undankeppni HM 2018 í dag.
Casillas er 35 ára og á að baki 167 landsleiki. Hann hefur tvívegis orðið Evrópumeistari með Spánverjum og einu sinni heimsmeistari.
Hann missti sæti sitt í byrjunarliði spænska liðsins til David De Gea á EM í sumar og fær nú ekki sæti í hópnum. Aðrir markverðir sem eru í hópnum nú eru Pepe Reina, markvörður Napoli, og Adrian sem ver mark West Ham.
Meðal annarra leikmanna sem hlutu ekki náð fyrir augum Julen Lopetegui, sem tók við spænska landsliðinu í sumar, eru Cesc Fabregas, Pedro Rodriguez og Juanfran Torres.
Diego Costa og Juan Mata eru þó báðir valdir en þeir komust ekki í EM-hóp Vicente del Bosque í sumar.
Meðal þeirra ungu leikmanna sem fá tækifærið nú eru þeir Marco Asensio, Sergi Roberto og Saul Niguez.
