Þetta er í fyrsta sinn sem Sigmundur veitir viðtal eftir að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar tók við störfum.
„Ég tel að ef ég hefði ekki hætt væri Framsóknarflokkurinn ekki í ríkisstjórn núna og ekki Sjálfstæðisflokkurinn heldur. Ríkisstjórnin hefði farið frá í ákveðinni atburðarrás sem ég gat ímyndað mér hvernig yrði,“ sagði Sigmundur. Hann taldi mikilvægt að þau verkefni sem ríkisstjórnin hafði unnið að næðu fram að ganga. „Planið er allt að ganga upp,“ sagði Sigmundur.

Sigmundur kom ekki með þingrofstillögu á fund forseta
Sigmundur Davíð sagði sem kunnugt er af sér sem forsætisráðherra snemma í apríl eftir að hann gat ekki veitt tilhlýðilegar útskýringar á því hvers vegna nöfn hans og konu hans, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, var að finna í svonefndum Panama-skjölum. Skjölin sýna viðskiptavini lögfræðiskrifstofunnar Mossack Fonseca sem var öflug á Panama í stofnun aflandsfélaga fyrir auðuga viðskiptavini sína.

„Þessum fundi lauk því á þann hátt að ég var ekki reiðubúinn til þess að undirrita yfirlýsingu um þingrof né gefa forsætisráðherra fyrirfram neitt fyrirheit um það hvort ég myndi samþykkja þá beiðni fyrr en ég vissi og hefði átt samtöl við forystumenn annarra flokka um hver þeirra afstaða væri,“ sagði Ólafur Ragnar. Sigmundur Davíð segist vilja vekja athygli á því að þegar hann kom af fundi þeirra forsetans hafi hann verið glaður og brosandi. En að forseti hafi hins vegar verið í geðshræringu og rokið til og haldið blaðamannafund.
„Ég hafði fengið staðfest það sem mig grunaði, það sem ég óttaðist. Það var léttir. Ég vissi að ég hefði þurft að gera það sem ég gerði. Ég vissi að þetta var eina leiðin.“ Sigmundur segist ekki hafa séð blaðamannafundinn en heyrt af honum og að þar telji hann margt skrýtið.
„Það er eitt og sér mjög skrýtið að forseti rjúki beint í að halda blaðamannafund til að tjá sig um samtal forseta og forstæisráðherra,“ sagði Sigmundur. Hann segist hafa talið að trúnaður ríkti um slík samtöl svo að forseti og forsætisráðherra gætu rætt opinskátt saman.
Hann sagðist hafa sagt fimm sinnum við forsetann að hann vildi halda ríkisstjórnarsamstarfinu gangandi.