Innlent

Þjóðareign sjötta stærsta undirskriftasöfnunin

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ólafur Ragnar vísaði fjölmiðlalögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að tæplega 32 þúsund skrifuðu undir áskorun á forsetann að synja lögunum.
Ólafur Ragnar vísaði fjölmiðlalögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að tæplega 32 þúsund skrifuðu undir áskorun á forsetann að synja lögunum. Vísir/Anton
Mun fleiri hafa nú skrifað undir áskorun á forseta Íslands um að vísa öllum lögum þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs í þjóðaratkvæðagreiðslu en þeir sem skoruðu á forsetann að synja Icesave III staðfestingar.

Yfir 45 þúsund hafa skrifað undir vegna fiskveiðiauðlindarinnar en kveikjan að þeirri undirskriftasöfnun er fyrirhuguð ráðstöfun makrílkvóta til sex ára en úthlutunin framlengist um eitt ár í senn og er ekki hægt að draga hana til baka nema með sex ára fyrirvara.

Samkvæmt yfirliti sem Kjarninn tók saman er undirskriftasöfnunin því orðin sú sjötta stærsta í sögunni.

Fleiri undirskriftir hafa safnast nú en gegn fjölmiðlalögunum árið 2004 en Ólafur Ragnar Grímsson forseti synjaði þeim staðfestingar og vísaði í þjóðaratkvæðagreiðslu, í fyrsta sinn í lýðveldissögunni. Þá skrifuðu tæplega 32 þúsund undir áskorun á forsetann að synja lögunum.

Stærsta undirskriftasöfnun sögunnar er Hjartað í Vatnsmýrinni þar sem fólk skoraði á yfirvöld að halda flugvellinum áfram í Vatnsmýrinni. Um 70 þúsund manns skrifuðu undir áskorunina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×