Innlent

Tap af veiðum á langreyðum hjá Hval hf.

Ingvar Haraldsson skrifar
Kristján Loftsson er framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og stór hluthafi í Hval
Kristján Loftsson er framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og stór hluthafi í Hval vísir/anton
Hvalur hf. hagnaðist um þrjá milljarða króna á síðasta rekstrarári sem hófst í október 2013 og lauk í september 2014.

Hagnaðurinn skýrist nær alfarið af af tekjum frá dótturfélaginu Vogun hf. sem námu 3,2 milljörðum króna. Vogun á stóran hlut í HB Granda og Hampiðjunni. Hagnaður á fyrra rekstrarári nam tæplega 2,5 milljörðum króna og jókst nokkuð milli ára.

Samkvæmt því sem fram kemur í ársreikningunum varð tap á hvalveiðum fyrirtækisins. Hvalur seldi hvalafurðir fyrir 1.055 milljónir króna á síðasta ári en kostnaður í Hvalfirði, við rekstur hvalveiðiskipa, og útflutningstengdur kostnaður nemur samtals 2.011 milljónum króna. Þá er bókfærð birgðabreyting hvalafurða upp á 822 milljónir króna. Út frá þessu má áætla að tap Hvals af veiðum á langreyðum hafi að minnsta kosti verið 73 milljónir króna.

Í ársreikningi er einnig tilgreindur kostnaður í Hafnarfirði upp á 120 milljónir króna og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður upp á 158 milljónir króna sem gera má ráð fyrir að hafi að einhverjum hluta fallið til vegna hvalveiða.

Þá kemur fram í ársreikningnum að Hvalur hafi átt frosnar hvalafurðir metnar á 2,6 milljarða króna í lok september 2014. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×