Erlent

Jafnaðarmenn í Þýskalandi ósáttir við ummæli fjármálaráðherra

Þórgnýr Einar Albertsson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifa
Ummæli Wolfgang Schäuble um brotthvarf Grikkja úr evrusvæðinu valda jafnaðarmönnum áhyggjum.
Ummæli Wolfgang Schäuble um brotthvarf Grikkja úr evrusvæðinu valda jafnaðarmönnum áhyggjum. nordicphotos/afp
„Herra Schäuble hefur ögrað Jafnaðarmannaflokknum,“ sagði Sigmar Gabriel, leiðtogi Jafnaðarmannaflokks Þýskalands og varakanslari, við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF í gær.

Það hriktir í stoðum þýsku ríkisstjórnarinnar eftir ummæli fjármálaráðherrans Wolfgangs Schäuble frá því í síðustu viku. Schäuble talaði þá um að mögulega gæti reynst betra að víkja Grikkjum tímabundið úr evrusvæðinu.

Ummæli fjármálaráðherrans fóru öfugt ofan í þingmenn Jafnaðarmannaflokksins, samstarfsflokks Kristilega demókrataflokksins, flokks Angelu Merkel.

Sigmar Gabriel
Gabriel sagði hugmynd Schäuble ósanngjarna og að átök hans við Merkel væru ólíðandi.

Varaformaður jafnaðarmannaflokksins, Ralf Stegner, gagnrýndi Schäuble harðlega og gaf í skyn við fjölmiðla að fjármálaráðherrann ætti að segja af sér.

„Hegðun Schäuble sýnir að hægriflokkarnir í Evrópu hafa týnt áttum þegar að Evrópumálum kemur,“ sagði Stegner enn fremur.

Stjórnmálaskýrendur í Þýskalandi hafa velt vöngum yfir því hvort Schäuble muni segja af sér embætti en hann hefur þó sjálfur hafnað því. Í viðtali við Der Spiegel sagði Schäuble að hann hefði ólíkar hugmyndir en Merkel í mörgum málum, en að margbreytilegar skoðanir væru hluti af lýðræðinu. 

Schäuble hafnaði einnig hugmyndinni um þýsk yfirráð í Evrópu. „Þýskaland ræður ekki yfir Evrópusambandinu. Hagkerfi Þýskalands er sterkt, því neitum við ekki, en öfugt við Frakkland og Bretland er Þýskaland ekki með fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Því er ekki hægt að segja að Þýskaland sé í yfirburðastöðu,“ sagði Schäuble.

Fjármálaráðherrann skaut einnig föstum skotum á Gabriel. „Allir flokkar hafa sín vandamál,“ sagði Schäuble. „En í samsteypustjórn þarf að sýna hinum flokknum tillitsemi. Þú reynir ekki að leysa þín eigin vandamál með ónákvæmum ásökunum í garð annarra.“

Þýski þingmaðurinn Hans Michelbach úr flokki Kristilegra demókrata í Bæjaralandi, sem styður ríkisstjórn Angelu Merkel, studdi við bakið á Schäuble í gær. „Við þörfnumst Schäuble nú meira en nokkurn tímann áður,“ sagði hann. „Schäuble leyfir röddum þeirra sem efast um Evrópusambandið að heyrast.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.