Lífið

Fæðubótarefni unnið úr íslenskum trjáberki

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hannes hefur lengi haft áhuga á trjárækt og garðyrkju en verkefnið er hluti af meistarverkefni hans í matvælafræði.
Hannes hefur lengi haft áhuga á trjárækt og garðyrkju en verkefnið er hluti af meistarverkefni hans í matvælafræði. Vísir/Stefán
Hannes Þór Hafsteinsson vinnur nú hörðum höndum að vinnslu fæðubótarefnisins resveratróls úr berki íslenskra grenitrjáa.

Hannes hefur haft áhuga á trjárækt og garðyrkju frá barnæsku og er menntaður garðyrkjufræðingur en verkefnið er hluti af meistaraverkefni hans í matvælafræði.

„Það eru mjög margar plöntutegundir í heiminum sem innihalda þetta efni, resveratról. Rannsóknir hafa sýnt að það eru engar plöntutegundir sem innihalda jafn mikið af þessu og greni og lerki,“ segir Hannes en efnið finnst einnig í húð vínberja, þó í talsvert minna magni og Hannes imprar sposkur á því að hjartaheilsa Frakka sé með eindæmum góð.

Hannes vinnur nú að því að koma upp hagkvæmri vinnslu og gerir ráð fyrir því að ferlið í heild taki rúmlega tvö ár.

„Verðmætið fer náttúrulega bara eftir hversu vel efnið er unnið, til dæmis getur kílóverðið verið allt frá tuttugu þúsund og upp í eina milljón.“

Íslenskur trjáviður mun verða notaður til vinnslunnar en svo heppilega vill til að talsvert er ræktað af greni og lerki á landinu segir Hannes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×