Innlent

Segir stórfellda tollalækkun fara gegn landbúnaðarstefnu

Landbúnaðarráðherra segir almennt ekki ríkja kjötskort á markaði. Komi upp skortur sé opnað á tímabundna tollkvóta.
Landbúnaðarráðherra segir almennt ekki ríkja kjötskort á markaði. Komi upp skortur sé opnað á tímabundna tollkvóta. fréttablaðið/Stefán
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að stórfelld lækkun tolla á landbúnaðarafurðum væri ekki í samræmi við landbúnaðarstefnu Íslands. Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær námu tollar af innfluttu kjöti 1,3 milljörðum króna í fyrra. Sigurður Ingi segir alla tolla greiðast af neytendum, af kjöti sem öðrum vörum, en rétt sé að hafa í huga að engin trygging sé fyrir því að lækkun tolla myndi skila sér að fullu til neytenda.

Spurður hvort komi til greina að lækka tolla á innfluttu kjöti svarar hann:

„Samið er um tolla í gagnkvæmum samningum á milli landa, eða ríkjasambanda. Það þýðir að tollalækkun er gagnkvæm. Ríki sem lækkar tolla hjá sér gagnvart öðru ríki eða ríkjasambandi nýtur þess sama í útflutningi.“

En kemur til greina að afnema tolla á innfluttar landbúnaðarafurðir, líkt og formaður Neytendasamtakanna hefur kallað eftir?

„Tollvernd er hluti af framleiðsluskilyrðum landbúnaðarins. Tilgangur hennar er meðal annars að jafna aðstöðumun landa. Hún er því hluti af landbúnaðarstefnunni og í fullu samræmi við tilgang og markmið búvörulaga.“

Sigurður Ingi Jóhannsson
Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær var 25 til 30 prósentum af öllu seldu kjöti á landinu í fyrra innflutt. Annar innlend framleiðsla eftirspurn, eða þarf að endurskoða landbúnaðarkerfið?

„Almennt er enginn skortur á kjöti á markaðnum í dag hér á landi. Í þeim tilfellum sem það kemur upp er brugðist við og opnaðir tímabundnir tollkvótar meðan það ástand varir. Unnið er að því að auka framleiðslu á nautakjöti, meðal annars með væntanlegu frumvarpi um innflutning á erfðaefni.“

Sigurður Ingi segir fyrirkomulag tolla víðast hvar það sama í heiminum. Tollverndin sé óaðskiljanlegur hluti stuðnings við innlenda matvælaframleiðslu.

„Þess ber einnig að geta að beinn stuðningur við nautakjötsframleiðslu er óverulegur hér á landi í samanburði við nágrannalöndin. Stuðningurinn er því einkum í formi tollverndar hvað nautakjöt varðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×