Innlent

Riðuveiki greinist á einum bæ

Riðuveiki þýðir aðeins eitt – niðurskurð á öllu fé á viðkomandi býli.
Riðuveiki þýðir aðeins eitt – niðurskurð á öllu fé á viðkomandi býli. fréttablaðið/gva
Riðuveiki greindist nýverið á bænum Neðra-Vatnshorni á Norðvesturlandi. Þetta er fyrsta tilfelli hefðbundinnar riðu sem greinist á landinu frá árinu 2010.

Riðan greindist í sýnum úr tveimur kindum frá bænum en þar er fjöldi fjár hátt í 500. Sýnin voru tekin samkvæmt skimunaráætlun Matvælastofnunar við slátrun síðastliðið haust. Sýnin voru rannsökuð á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, að því er fram kemur í frétt Matvælastofnunar.

Um er að ræða hefðbundna gerð riðusmitefnisins, sem ekki hefur greinst hér á landi síðan árið 2010. Fram til ársins 2010 greindist riða á nokkrum bæjum á landinu á hverju ári en engin tilfelli hefðbundinnar riðu greindust á árunum 2011, 2012 og 2013. „Riðuveikin er því á undanhaldi en þetta tilfelli sýnir að ekki má sofna á verðinum,“ segir í fréttinni.

Héraðsdýralæknir vinnur nú að öflun faraldsfræðilegra upplýsinga og úttektar á búinu til að meta umfang aðgerða við förgun fjár, þrif og sótthreinsun. Því næst fer málið í hefðbundið ferli hvað varðar gerð samnings um niðurskurð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×