Íslenska liðið er statt í Zilina þar sem það mætir heimamönnum í vináttuleik, fjórum dögum eftir að tapa fyrir Póllandi, 4-2, í Varsjá.
Sjá einnig:Aron Einar verður ekki með gegn Slóvakíu
Slóvakar, eins og Pólland og Ísland, slógu í gegn í undankeppninni og komust beint á EM í Frakklandi. Þeirra helstu stjörnur verða þó ekki með á morgun. Bæði Marek Hamsik og Martin Skrtel verða fjarri góðu gamni.
„Slóvakar leggja meira upp úr sterkum varnarleik og skyndisóknum. Það verður erfiðara að opna þá heldur en Pólverjana sem okkur tókst að opna mjög oft. Þar fengum við mörg fín og opin færin,“ segir Heimir.

Landsliðsþjálfarinn fagnar því að fá leiki við svona sterk lið, en það gerir mikið fyrir nýju mennina og þá sem hafa spilað minna að fá sénsinn gegn svona sterkum þjóðum.
„Við erum að spila á móti þjóðum sem slógu í gegn í undankeppninni. Það er þvílíkt fár í Póllandi og Slóvakar voru nánast búnir að tryggja sér sæti á EM eftir sex leiki sem þeir unnu alla. Það er kærkomið að fá svona æfingaleiki til að prófa nýja menn. Við erum samt ekkert að setja ellefu nýliða inn í einu á móti svona liðum,“ segir Heimir.
Sjá einnig:Einnar mínútu þögn á æfingu strákanna vegna hryðjuverkanna í París
Fyrri hálfleikurinn gegn Póllandi var góður en eftir hann var íslenska liðið 1-0 yfir. Í seinni hálfleik fengu fleiri að spila sem hafa lítið komið við sögu og fór þá að slitna á milli í íslenska liðinu.
„Þetta er bara fórnarkostnaður fyrir að gefa mönnum tækifæri. Það hoppar enginn tilbúinn inn í sinn fyrsta landsleik en einhverntíma verða menn að fá tækifæri og við teljum að þetta sé rétti tíminn,“ segir Heimir.
„Það tekur tíma fyrir nýja menn að koma inn í skiplagið hjá okkur. Hluti af tilgangnum með þessum leikjum er einmitt að fá fleiri inn í þetta og stækka hópinn þannig að við töpum ekki leikjum ef við missum einn eða tvo leikmenn út,“ segir Heimir Hallgrímsson.