Fótbolti

Kolbeinn: Ætlum okkur eins langt og hægt er á EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson lá meiddur eftir að fiska vítaspyrnu gegn Póllandi og þurfti að fara af velli.
Kolbeinn Sigþórsson lá meiddur eftir að fiska vítaspyrnu gegn Póllandi og þurfti að fara af velli. vísir/adam jastrzebowski
Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, verður að öllum líkindum með strákunum okkar á morgun þegar þeir mæta Slóvakíu í vináttuleik annað kvöld.

Kolbeinn, sem er næst markahæsti leikmaður karlalandsliðsins frá upphafi, meiddist snemma í 4-2 tapleiknum gegn Póllandi á föstudagskvöldið og þurfti að fara af velli.

Hann verður þó að öllum líkindum með á morgun sem og Aron Einar Gunnarsson og Kári Árnason, að því fram kemur á fótbolti.net. Kári gat ekkert spilað gegn Póllandi og Aron Einar fór af velli í hálfleik.

Kolbeinn sat fyrir svörum á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag og var þar spurður hvað strákarnir okkar ætla sér að gera í Frakklandi næsta sumar.

„Við viljum eiga gott mót og förum þar í hver einasta leik til að vinna hann,“ sagði Kolbeinn.

„Við viljum komast eins langt og hægt er. Við getum unnið hvaða lið sem er því við erum með gott lið. Við erum ekki að fara til Frakklands til að njóta þess að vera þar heldur til að vinna leiki.“

Kolbeinn er fullur sjálfstrausts og það eðlilega eftir flotta sigra á Tyrkjum, Tékkum og Hollendingum í undankeppninni þar sem Ísland var ekki langt frá því að vinna einn allra sterkasta riðilinn.

„Við búumst við miklu af sjálfum okkur og viljum komast eins langt og hægt er á EM,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson.

Aron Einar Gunnarsson verður líklega með annað kvöld en hér skallar hann boltann gegn Póllandi.vísir/adam jastrzebowski



Fleiri fréttir

Sjá meira


×