Lífið

Þrautseigur reynir tré ársins

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Tré ársins stendur föstum fótum undir Sandfellsfjalli.
Tré ársins stendur föstum fótum undir Sandfellsfjalli. Mynd/Gun
Reynitré í Sandfelli í Öræfum var fyrir skemmstu útnefnt tré ársins 2015 af Garðyrkjufélagi Íslands.

Tréð var gróðursett árið 1923 við prestssetrið Sandfell. Það verk unnu Þorbjörg Oddbergsdóttir og systir hennar, Anna Oddbergsdóttir, húsfreyja á staðnum, kona séra Eiríks Helgasonar. Skyldfólk prestshjónanna var meðal þeirra gesta sem mættu við útnefninguna og skreytti Anna Sigríður Helgadóttir athöfnina með söng. Á eftir var viðstöddum boðið að þiggja veitingar í Hótel Skaftafelli.

Reynirinn er stakt, margstofna tré. Hann var hæðarmældur við athöfnina af Bjarna Diðriki Sigurðssyni, prófessor við Landbúnaðarháskólann, og reyndist vera 11,98 m.

Í Sandfelli er að finna minnis­varða um landnámskonuna Þorgerði sem þar bjó fyrst. Síðasti bærinn í Sandfelli var jafnaður við jörðu árið 1974 og hafði þá verið í eyði í tæp 30 ár. Upplýsingaskilti um hann stendur skammt frá hinum þrautseiga reyni sem staðið hefur af sér margt stormviðrið því við Sandfell koma einhver sterkustu hvassviðri sem mælast á okkar landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×