Enski boltinn

Von á tilkynningu Gerrard í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Búist er við því að Steven Gerrard muni tilkynna í dag að hann muni fara frá Liverpool þegar samningur hans við félagið rennur út í lok tímabilsins.

Enskir fjölmiðlar greindu frá því í gærkvöldi að þetta stæði til og að Gerrard ætti í viðræðum við LA Galaxy og New York City í MLS-deildinni vestanhafs. Þá eru félög í miðausturlöndum einnig sögð áhugasöm um kappann.

Gerrard skoraði tvívegis í 2-2 jafntefli Liverpool gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í gær en honum er nú heimilt að hefja viðræður við erlend félög.

Jamie Carragher, fyrrum liðsfélagi Gerrard hjá Liverpool, skrifaði á Twitter-síðu sína í gærkvöldi að þetta væri sorgardagur fyrir Liverpool og enska knattspyrnu.

„Ég tel þó að þetta sé rétt ákvörðun fyrir alla aðila,“ skrifaði hann enn fremur. Gerrard gekk í raðir Liverpool þegar hann var aðeins átta ára gamall og hefur spilað alls 695 leiki fyrir félagið og skorað í þeim 180 mörk. Hann vann ellefu titla á þeim tíma, þar af Meistaradeild Evrópu árið 2005.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×