Enski boltinn

Rodgers um Gerrard: Ekki nóg að kalla hann goðsögn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brendan Rodgers og Steven Gerrard.
Brendan Rodgers og Steven Gerrard. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur tjáð sig um tilkynningu fyrirliðans Steven Gerrard en Gerrard mun enda 26 ára feril sinn hjá félaginu í vor.

„Við lifum á tímum þar sem orðið goðsögn er ofnotað en í þessu tilfelli er það ekki nógu víðtækt til að lýsa honum," sagði Brendan Rodgers við BBC.

„Ég sjálfur mun alltaf vera honum þakklátur fyrir þann stuðning sem hann veitti mér þegar ég settist í stjórastólinn. Steven kom til mín og lofaði því að standa hundrað prósent á bak við mig og gera allt sitt til að hjálpa mér að kynna nýjar hugmyndir og nýjar leiðir til að gera hlutina. Hann gerði gott betur en að standa við þessi orð sín," sagði Brendan Rodgers.

„Hann er einstaklega öflugur og áhrifamikill leikmaður. Á stundum hefur hann borið liðið á öxlunum og hann hefur sýnt hæfileika inn á vellinum sem hafa réttilega skilað honum í hóp besti leikmanna heims í meira en áratug," sagði Rodgers.

„Sem leiðtogi og manneskja er hann sér á báti meðal þeirra sem ég hef unnið með. Hann fór með fagmennskuna upp í nýjar hæðir og hollusta hans til knattspyrnunnar ætti að vera fyrirmynd fyrir alla í fótboltaheiminum," sagði Rodgers.

„Hann er líka maður sem hefur alltaf sett félagið og liðið í fyrsta sætið en sig sjálfan í annað sætið. Það mun á endanum örugglega verða hans arfleifð," sagði Rodgers.

„Fólk sem er í betri stöðu en ég hafa sagt að Steven sé besti leikmaðurinn í sögu Liverpool. Þegar við skoðum hvaða leikmenn koma til greina þá er það engin smá yfirlýsing," sagði Rodgers.

„Við munum auðvitað sakna hans, bæði inn á vellinum og hvernig fyrirliði hann er. Hans áhrif munu samt lifa áfram og við óskum honum ánægju og velgengni á nýjum stað. Þangað til mun ég njóta þess að vinna með  manninum Steven Gerrard  og leikmanninum Steven Gerrard sem er einn sá besti sem ég hef séð," sagði Rodgers.

Brendan Rodgers og Steven Gerrard.Vísir/Getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×