Enski boltinn

McDermott: Gerrard er besti leikmaðurinn í sögu Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Terry McDermott og Steven Gerrard.
Terry McDermott og Steven Gerrard. Vísir/Getty
Steven Gerrard tilkynnti í morgun að hann ætli ekki að gera nýjan samning við Liverpool en þessi 34 ára fyrirliði Liverpool yfirgefur félagið sem hann hefur verið hjá síðan að hann var átta ára.

Terry McDermott, margfaldur meistari með Liverpool á áttunda áratugnum, tjáði sig á twitter um stöðu og mikilvægi Steven Gerrard í sögu Liverpool.

„Trúið mínum orðum. Gerrard er besti leikmaður í sögu Liverpool og þetta er sorgardagur fyrir alla tengdum félaginu," skrifaði Terry McDermott og rökstuddi síðan skoðun sína.

„Kenny og Souey skinu bjart í frábærum Liverpool-liðum. Gerrard hefur spilað með Liverpool-liðum sem voru í besta lagi miðlungs og hann skilaði þeim titlum," skrifaði Terry McDermott á twitter.

Terry McDermott var enskur landsliðsmaður en hann lék með Liverpool frá 1974 til 1982 og vann enska meistaratitilinn fimm sinnum með félaginu eða 1976, 1977, 1979, 1980 og 1982. McDermott vann líka Evrópukeppni meistaraliða í þrígang eða 1977, 1978 og 1981.

Terry McDermott vann Evrópukeppni meistaraliða þrisvar sinnum með Liverpool. Hér er hann með Kenny Dalglish.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×