Gunnar Scheving Thorsteinsson, sem ákærður var fyrir að miðla upplýsingum sem áttu að fara leynt til þriðja aðila, lýsti því við aðalmeðferð málsins að hann hefði aldrei haft ásetning um að deila upplýsingum með þriðja aðila um lögreglustörf sín. Héraðsdómur sýknaði Gunnar í dag af ákærunni.
Hann sagðist hafa rætt við vin sinn um árás sem hann varð fyrir en í spjalli þeirra sagði hann hvorki frá samskiptum sínum við piltinn sem réðst á hann né lýsti hann lögregluafskiptum sínum af honum.
Fyrir dómi kvaðst Gunnar vita vel hvað fælist í þagnarskyldu lögreglumanna „en við nám í lögregluskólanum hafi verið fjallað um það að lögreglumenn verði að geta treyst og rætt við fjölskyldu og trúnaðarvini um mál eins og ákærði kvaðst hafa gert í þessu tilviki,“ eins og segir í dómi héraðsdóms.
Það hafi því ekki hvarflað að Gunnari að hann yrði ákærður fyrir að deila því með vini sínum að hann hefði orðið fyrir árás. Það væri ekki í samræmi við það sem kennt væri í lögregluskólanum og þá hafði hann aldrei heyrt af því að lögreglumenn væru ákærðir fyrir eitthvað álíka.
Það er mat dómsins að Gunnar hafi ekki gerst brotlegur við hegningarlög enda hafi hann verið í góðri trú þegar hann ræddi við vin sinn. Hann var því sýknaður og var ríkissjóður til að greiða allan málskostnað, alls um 4 milljónir króna.
Dóm héraðsdóms má sjá í heild sinni í meðfylgjandi skjali.
