Íslenski boltinn

ÍBV kærir Fylki | Fylkismenn koma af fjöllum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Úr leik hjá ÍBV.
Úr leik hjá ÍBV. vísir/valli
Knattspyrnudeild ÍBV undirbýr nú kæru á hendur Fylkismönnum vegna leikmannamála.

Í yfirlýsingu frá ÍBV kemur fram að að Fylkir hafi haft samband við samningsbundinn leikmann ÍBV áður en heimilt var samkvæmt reglum KSÍ og, það sem meira er, gert samning við viðkomandi leikmann sem ekki er nafngreindur.

ÍBV segir enn fremur í yfirlýsingunni að þa muni ekki tjá sig frekar um málið fyrr en það hefur verið tekið fyrir hjá KSÍ. Eyjamenn hafa þess utan óskað eftir flýtimeðferð á áðurnefndri kæru.

Þjálfari Fylkismanna er Eyjamaðurinn Hermann Hreiðarsson sem hefur áður þjálfað lið ÍBV.

Ásgeir Ásgeirsson, formaður knattspyrnudeildar Fylkis, sagðist ekki hafa heyrt af málinu er Vísir heyrði í honum skömmu eftir yfirlýsingu Eyjamanna.

Ásgeir sagðist hafa verið að koma að utan og væri á leið á fund með knattspyrnudeildinni.

„Ég myndi klárlega vita af því ef það væri búið að semja við leikmann. Þá væri líka búið að tilkynna það. Þú ert að segja mér fréttir," sagði Ásgeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×