Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra veitti í dag viðtöku jáeindaskanna sem íslenska þjóðin fær að gjöf frá Íslenskri erfðagreiningu. Tækið er metið á um 800 milljónir króna en um er að ræða algjört lykiltæki við umönnun krabbameinssjúkra.
Í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu kemur að um 200 íslenskir sjúklingar verði sendir til Kaupmannahafnar í slíkan skanna í ár. Þá sé líklegt að skanninn yrði enn meira notaður væri hann að finna hér á landi, eins og nú er orðin raunin.
„Jáeindaskannar eru einnig mikilvægir við greiningu á Alzheimers sjúkdóminum og má reikna með að nokkrir tugir íslenskra sjúklinga yrðu sendir í slíkan skanna á ári hverju ef hann væri til staðar í landinu,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur einnig fram að skanninn sé mjög mikilvægt tæki til vísindarannsókna á sjúkdómum í hinum ýmsu líffærum.
