Fótbolti

Börsungar köstuðu frá sér sigrinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Messi og Suárez fagna marki þess fyrrnefnda.
Messi og Suárez fagna marki þess fyrrnefnda. Vísir/Getty
Barcelona fór illa að ráði sínu þegar liðið tók á móti Deportivo La Coruna í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Lokatölur 2-2.

Börsungar voru með unninn leik í höndunum en köstuðu sigrinum frá sér á lokakaflanum.

Lionel Messi kom Barcelona yfir á 39. mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu. Þetta var 18. markið sem Argentínumaðurinn skorar beint úr aukaspyrnu fyrir Barcelona en aðeins Ronaldinho hefur gert fleiri (19).

Króatinn Ivan Rakitic kom Barcelona í 2-0 á 62. mínútu en liðsmenn Deportivo gáfust ekki upp og þeim tókst að jafna metin með mörkum frá Lucas Perez Martínez og Alex Bergantinos.

Þrátt fyrir jafnteflið er Barcelona enn á toppi spænsku deildarinnar en Atletico Madrid getur náð meisturunum að stigum með sigri á Athletic Bilbao á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×