Innlent

Náðu ekki samningum við Landsvirkjun um viðbótarorku

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
vísir/stefán
Járnblendiverksmiðjan Elkem Ísland náði ekki samningum við Landsvirkjun um umframorku og hefur ákvörðun verið tekin um að lækka álag á ofnum í verksmiðjunni út árið. Elkem taldi ljóst að fyrirtækið þyrfti á meiri orku að halda en þeirri sem skilgreind er í samningi fyrirtækjanna tveggja, en fékk það ekki samþykkt, að því er segir á vef Verkalýðsfélags Akraness.

Þar er birtur hluti úr tölvupósti Gests Péturssonar, forstjóra Elkem, sem sendur var á starfsmenn á dögunum. Hann segir í póstinum að ofnrekstur hafi gengið vel í ár, og til þess að geta haldið áfram á sömu braut hafi verið farið í samningaviðræður. „Því miður var það niðurstaðan að samningar náðust ekki þrátt fyrir góðan vilja. Af þeim ástæðum þurfum við að lækka álag á ofnum það sem eftir lifir af desember,“ segir Gestur.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að um sé að ræða grafalvarlegt mál, enda sé atvinnuöryggi starfsmanna Elkem í húfi. „Þó vissulega sé rétt að taka fram að í þessu tilfelli er einungis verið að tala um viðbótarorku þá er rétt að taka það fram að Elkem Ísland og Norðurál eru með lausa raforkusamninga frá árinu 2019 og ljóst að miðað við þessar staðreyndir að Landsvirkjun er að óska eftir þannig verðum á raforkunni að fyrirtækið treystir sér ekki til þess að ganga frá samningi. Þá má vera ljóst að framtíð stóriðjureksturs, ekki bara hjá Elkem Ísland heldur öðrum stóriðjufyrirtækjum, er stefnt í stórhættu,“ segir hann.

Þá skorar hann á stjórnvöld að fá hlutlausan, óháðan aðila til að skoða þau mál er lúta að raforkuverði í þeim löndum sem Ísland vilji bera sig saman við, því gríðarlegir hagsmunir séu í húfi fyrir þjóðarbúið í heild.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×