Íslenski boltinn

Útilokar ekki Diego í íslenska landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Vísir
Diego Jóhannesson, hægri bakvörður hjá spænska B-deildarliðinu Real Oviedo, kemur til greina í íslenska landsliðið að sögn Heimis Hallgrímssonar, annars landsliðsþjálfara Íslands. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Diego hefur alla tíð búið á Spáni en á íslenskan föður. Hann hefur aldrei spilað landsleik og er því enn gjaldgengur í íslenska landsliðið.

Heimir segir að hann hafi skoðað Diego og rætt um hann innan þjálfarateymisins. „En leikmaður sem ekki talar íslensku þarf að vera talsvert betri en aðrir til að komast í hópinn hjá okkur. Við munum samt klárlega fylgjast með honum, það er ekki vafi.“

Real Oviedo er í þriðja sæti B-deildarinnar á Spani, aðeins fimm stigum á eftir toppliðinu Cordoba. Diego, sem er 22 ára, er uppalinn hjá félaginu og hefur verið fastamaður í liðinu síðan í byrjun nóvember og lagt upp eitt mark á þeim tíma. Liðið er nýliði í B-deildinni en Diego kom nokkuð við sögu í leikjum liðsins í C-deildinni í fyrra.

„Hann á kannski ekki mörg tímabil að baki en er byrjaður að spila á svolítið háu stigi í leikstöðu sem við erum ekkert sérlega ríkir í. Við erum að fylgjast með honum eins og öllum öðrum sem eru gjaldgengir í íslenska landsliðið.“

Næsti möguleiki fyrir íslensku landlsiðsþjálfarana að skoða Diego er í mars og er óvíst hvort að nýr leikmaður yrði tekinn inn í hópinn svo stuttu fyrir EM.

„Ef hann myndi eiga glimrandi tímabil og fara með sínu liði upp í efstu deild á Spáni eða eitthvað slíkt, þá er aldrei hægt að segja aldrei. Dyrunum er aldrei lokað á neinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×