Fótbolti

Benzema vill vinna EM með Valbuena

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty

Karim Benzema mun í kvöld tjá sig í fyrsta sinn um fjárkúgunarmálið sem vakið hefur mikla athygli í Frakklandi.



Benzema, sem leikur með Real Madrid, hefur verið ákærður fyrir að taka þátt í samsæri um að beita annan franskan landsliðsmann, Mathieu Valbuena, fjárkúgun vegna kynlífsmyndbands þess síðarnefnda.



Sjá einnig: Forsætisráðherra Frakka ekki hrifinn af Benzema



Benzema hefur viðurkennt að hann hafi komið að málinu en neitar því að hafa haft rangt við.



„Vonandi endar þetta vel og allt verður í lagi. Að við getum aftur spilað saman í franska landsliðinu og unnið EM,“ sagði Benzema í viðtalinu sem verður birt í heild sinni í kvöld.



„Ég er ekki að þykjast fyrir myndavélirnar. Ég er ekki að spila neinn leik,“ sagði Benzema enn fremur. „Ég er hingað kominn til að vera heiðarlegur.“



Sjá einnig: Valbuena opnar sig um fjárkúgunarmálið



Enn liggur ekki nákvæmlega ljóst fyrir hver þáttur Benzema er í málinu en talið er að hann hafi komið að máli við Valbuena á æfingu franska landsliðsins í haust fyrir hönd æskuvinar síns og hvatt hann til að hafa samband við aðila sem segjast vera með umrætt myndband í sínum fórum.



Benzema má samkvæmt dómsúrskurði ekki hitta Valbuena á meðan rannsókn málsins stendur og því geta þeir ekki verið saman í franska landsliðinu. Ef málið dregst á langinn fram yfir EM er ljóst að aðeins annar þeirra á möguleika á að taka þátt í mótinu. Hvorugur þeirra var valinn í franska landsliðið í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×