Fótbolti

Umfjöllun: Slóvenía - Ísland 0-6 | Stelpurnar fullkomnar í Slóveníu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir átti stórleik í kvöld.
Harpa Þorsteinsdóttir átti stórleik í kvöld. vísir/vilhelm
Ísland er í kjörstöðu eftir fyrstu þrjá leiki sína í undankeppni EM 2017 en stelpurnar okkar eru á toppi riðilsins með fullt hús stiga og markatöluna 12-0.

Stelpurnar voru afar sannfærandi í 6-0 sigri á Slóveníu ytra í kvöld. Stjarna leiksins var Harpa Þorsteinsdóttir sem skoraði tvö marka Íslands, lagði upp eitt og fékk aukaspyrnu sem gaf sér eitt til viðbótar.

Dagný Brynjarsdóttir kom Íslandi á bragðið snemma í leiknum en þá var komið að þætti Hörpu. Hún skoraði næstu tvö mörk leiksins, á 20. og 65. mínútu, en Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði fjórða markið úr aukaspyrnu sem Harpa fékk. Harpa lagði svo upp fimmta markið fyrir varamanninn Söndru Maríu Jessen á 80. mínútu.

Dagný skoraði sitt annað mark á 86. mínútu og stuttu síðar var víti dæmt á Slóveníu. Harpa tók vítið og freistaði þess að innsigla þrennuna en Sonja Cevnik varði spyrnu hennar.

Það var þó svekkjandi að Hólmfríður Magnúsdóttir, sem lék sinn 100. landsleik í dag, þurfti að fara af velli vegna meiðsla um miðjan fyrri hálfleik þegar meiðsli tóku sig upp hjá henni. Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður, þurfti einnig að fara af velli vegna meiðsla í síðari hálfleik.

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði sitt 75. landsliðsmark í kvöld.Vísir/Vilhelm
Skipulagið til fyrirmyndar

Frammistaða Íslands í fyrri hálfleik var sérstaklega góð en Ísland sýndi mikinn aga og gott skipulag í leik sínum, sem gaf af sér beittan og hættulegan sóknarleik.

Slóvenía kom þó inn í síðari hálfleikinn af ágætum krafti og skapaði sér sín bestu færi þá, á meðan að staðan var enn 2-0. En þegar Harpa jók muninn í 3-0 var ljóst í hvað stefndi og gengu stelpurnar okkar einfaldlega á lagið og kláruðu leikinn af miklum krafti.

Ísland hefur áður brennt sig á því að tapa mikilvægum leik í Slóveníu. Það gerðu þær fyrir átta árum síðan, á leið sinni á EM 2009 í Finnlandi sem var fyrsta stórmótið sem A-landslið kvenna tók þátt í.

Það var greinilegt frá fyrstu mínútu að stelpurnar ætluðu ekki að gera önnur eins mistök. Stelpurnar tóku völdin í leiknum um leið en eftir aðeins 27 sekúndur fékk Dagný frábær skallafæri fyrir miðju marki Slóvena eftir sendingu Hörpu. En skallinn sigldi framhjá markinu.

Dagný Brynjarsdóttir skoraði tvö mörk í kvöld.Vísir/Vilhelm
Dagný braut ísinn

Þetta gaf þó tóninn og það var viðeigandi að Dagný hafi bætt fyrir mistökin strax í upphafi með því að koma Íslandi yfir á 15. mínútu. Markið var einkennandi fyrir leik íslenska liðsins - uppbyggingin var frábær og samspilið gott allt frá aftasta manni til þess fremsta.

Margrét Lára hafði tekið niður langa sendingu Önnu Bjarkar niður og lagt út á Söru Björk, sem stakk svo boltanum inn á Dagnýju. Selfyssingurinn átti mikið eftir en gerði allt rétt og kom boltanum laglega í markið.

Fimm mínútum síðar jók Harpa forystu Íslands í 2-0. Margrét Lára sýndi kraft sinn þegar hún renndi sér á eftir boltanum við hliðarlínuna og kom honum á Hörpu. Móttakan var frábær hjá Hörpu, sem lék á einn varnarmann og kom sér þannig í gegn. Eftirleikurinn var auðveldur.

Harpa fékk tvö góð færi til viðbótar í fyrri hálfleik en Ísland náði ekki að bæta við forystu sína í fyrri hálfleik.

Hólmfríður Magnúsdóttir lék sinn 100. landsleik í kvöld en fór af velli vegna meiðsla.Vísir/Vilhelm
Þriðja markið nánast úr engu

Stærsta verkefni Íslands í síðari hálfleik var því að halda einbeitingu en snemma leit út fyrir að það myndi ekki ganga eftir. Mateja Zver, fyrrum leikmaður Þórs/KA átti sendingu inn í teig á 52. mínútu og Kristina Erman, sem var dauðafrí á fjarstöng eftir klaufalegan varnarleik Íslands, var enn meiri klaufi að hafa ekki nýtt færið betur en skot hennar fór framhjá Guðbjörgu og íslenska markinu.

Tjasa Tibaut fékk svo tvö ágæt færi eftir það en Guðbjörg reyndist vandanum vaxin. Hættumerkin voru þó til staðar og því var þriðja mark Íslands, sem Harpa skoraði á 65. mínútu, afar kærkomið.

Harpa skapaði markið nánast úr engu. Hún fékk sendingu inn á teig úr innkasti, sneri af sér varnarmann og skoraði með góðu skoti. Virtist einfalt en framkvæmdin var frábær.

Harpa fékk svo aukaspyrnu eftir að hún var nánast sloppin í gegn aðeins fjórum mínútum síðar en Margrét Lára skoraði fjórða mark Íslands úr henni. Skot Margrétar Láru hafði reyndar viðkomu í Zver sem var nóg til að koma Cevnik í marki Slóveníu úr jafnvægi.

Eftirleikurinn var auðveldur. Harpa kórónaði frábæran leik sinn þegar hún gaf stoðsendingu á Söndru Maríu Jessen sem skoraði tíu mínútum fyrir leikslok. Dagný skoraði svo sjötta markið á 86. mínútu og var Ísland hreinlega óheppið, sem fyrr segir, að bæta ekki enn fleiri mörkum við á viðburðarríkum lokamínútum leiksins.

Niðurstaðan engu að síður virkilega öflugur sigur Íslands sem heldur inn í vetrarfríið með frábært veganesti. Næsti leikur Íslands í undankeppninni verður gegn Hvíta-Rússlandi ytra þann 12. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×