Fótbolti

Sölvi: Var dálítið eins og körfubolti eftir að ég kom inn á

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sölvi fékk tækifæri eftir að Kári fór meiddur af velli.
Sölvi fékk tækifæri eftir að Kári fór meiddur af velli. Vísir
„Mjög svekkjandi úrslit í ljósi þess að við vorum 2-0 yfir og höfðum tiltölulega góða stjórn á leiknum,” sagði Sölvi Geir Ottesen, varnarmaður Íslands, í samtali við fjölmiðla eftir 2-2 jafntefli gegn Lettlandi.

Kári Árnason meiddist í byrjun leiks og fór af velli á átjándu mínútu og Sölvi leysti hann að hólmi. Hann segir að íslenska liðið hafi gefið því lettneska full mikið pláss í kringum vítateig Íslendinga.

„Þeir voru með beittar skyndisóknir í síðari hálfleik. Þeir fengu of mikið svæði til þess að keyra á okkur og voru með erfiða bolta inn í teig. Við gáfum þeim einnig of mikið pláss fyrir utan teiginn hjá okkur,” sem segir þó enga værukærð hafa verið í hópnum fyrir leikinn.

„Nei, engan veginn. Við fórum að sækja dálítið og opna okkur í stöðunni 2-0 sem við hefðum ekki átt að gera. Við hefðum átt að halda stöðunni 2-0.”

Kári fer hér í skallaeinvígi ásamt Kolbeini.Vísir
Ætlum okkur sigur í öllum leikjum

Eins og fyrr segir kom Sölvi snemma inn á. Hann hefur ekki spilað marga leiki í undankeppninni, en segir þó að það hafi ekki verið erfitt að koma inn í leikskipulagið. Hann þekki Ragnar frá tímum sínum hjá FCK í Danmörku þar sem þeir spiluðu saman .

„Nei, það var ekki erfitt. Þetta var kannski dálítið eins og körfubolti eftir að ég kom inn á. Það tekur aðeins á, en það var bara fínt að koma inn í þetta.”

„Ég spilaði með Ragga í FCK. Við höfum spilað mikið saman, en það er langt síðan síðast. Mér fannst þetta ganga fínt hjá okkur eftir að ég kom inná, en það hefði verið hægt að gera betur í þessum mörkum,” segir Sölvi sem býst alveg eins við því að byrja í Tyrklandi á þriðjudag:

„Ég býst alveg eins við því að byrja ef Kári nær sér ekki heilum,” og aðspurður hvort liðið ætli sér ekki sigur í Tyrklandi svaraði Sölvi kokhraustur að lokum:

„Að sjálfsögðu. Við ætlum okkur sigur í öllum leikjum.”


Tengdar fréttir

Þjálfari Lettlands: „Ég gerði mistök“

Marian Pahars, þjálfari Lettlands, var að vonum sáttur eftir að hafa séð lærisveina sína vinna upp tveggja marka forskot Íslands í dag en hann sagðist hafa gert mistök þegar hann lagði leikinn upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×