Erlent

Fíkniefnaverksmiðjan sú háþróaðasta í Evrópu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá vöruskemmunni.
Frá vöruskemmunni. MYND/SPÆNSKA ÞJÓÐVARNARLIÐIÐ
Fíkniefnaverksmiðjan sem spænska lögreglan lokaði á dögunum er ein sú háþróaðasta í Evrópu. Hún er metin á um eina milljón evra, eða rúmlega 140 milljónir króna. Í henni fundust hátt í sex þúsund kannabisplöntur sem flytja áttu til Hollands. Fimmtíu og átta ára Íslendingur er skráður leigutaki fyrir húsnæðinu.

Í verksmiðjunni mátti finna mikið af tækjabúnaði; kælikerfi, ljósum og vökvunartækjum, og komu tæknifræðingar og landbúnaðarsérfræðingar að hönnun hennar. Lögregla telur að um fjársterkan og skipulagðan fíkniefnahring sé að ræða.

Gróðurhúsið var í iðnaðarhverfi í útjaðri Molina de Segura, norðan við Murcia. Lögregla komst á snoðir um verksmiðjuna eftir að kvartanir tóku að berast um óreglu og truflanir á rafmagni frá nærliggjandi fyrirtækjum. Í ljós kom að fíkniefnasalarnir höfðu sótt sér rafmagnið með ólöglegum hætti.

Átta voru handteknir í kjölfarið, þar af þrír Íslendingar. Íslenski leigutakinn er sagður einn af höfuðpaurum málsins. Talið er að framleiðslan hafi verið hluti af umfangsmiklum smyglhring, sem hafi flutt um tíu tonn af maríjúana til Hollands í hverjum mánuði. Þá leikur grunur á að til hafi staðið að hefja aðra framleiðslu í Alicante.

Utanríkisráðuneytinu hefur ekki borist upplýsingar um málið, að sögn Urðar Gunnarsdóttur upplýsingafulltrúa ráðuneytisins.

Myndband af verksmiðjunni má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×