Innlent

Farþegamet slegið á Keflavíkurflugvelli í dag

Heimir Már Pétursson skrifar
Þeim áfanga verður náð í dag að fjórði milljónasti farþeginn fer um flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er algert met. Það stefnir í að farþegum um flugstöðina fjölgi um 25 prósent á þessu ári.

Gríðarleg fjölgun hefur verið á farþegum um flugstöð Leifs Eiríkssonar á undanförnum árum og hafa nánast allar spár um fjölgun milli ára reynst rangar, það er að segja of varkárar. Enda hefur Ísavía kynnt áætlanir um mikla stækkun flugstöðvarinnar og fjölgun flugvélastæða á næstu fimm til sex árum.

Í miðjum verkfallsaðgerðum gerast síðan söguleg tíðindi á Keflavíkurflugvelli í dag.

„Já, það er núna í fyrsta sinn sem fjórði fjórmilljónasti farþeginn fer um flugstöðina (innan eins árs). Það verður einhvern tíma í dag. Við sitjum bara við teljarann og fylgjumst með,“ segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Ísavía.

Allt árið í fyrra fóru 3,8 milljónir farþega um flugstöðina; það er að segja farþegar til og frá Íslandi sem og tengifarþegar. Og það verður tekið vel á móti fjórða milljónasta farþeganum.

„Já, það verður tekið vel á móti honum. Með blómum og glaðningi frá okkur hjá Ísavía,“ segir Guðni. Ef þessi fjölgun haldi áfram út árið upp á um 25 prósent muni fjórar milljónir sjöhundruð og fimmtíu þúsund farþegar fara um flugstöð Leifs Eiríkssonar á þessu ári.

Spár gera síðan ráð fyrir að farþegar verði sex milljónir á næsta ári, tveimur árum fyrr en eldri áætlanir gerðu ráð fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×