Erlent

Hrósar Kim Davis fyrir hugrekki og hvetur áfram

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Frans páfi, kominn aftur til Rómar, segir borgarstjórann þar bara þykjast vera kaþólskan.
Frans páfi, kominn aftur til Rómar, segir borgarstjórann þar bara þykjast vera kaþólskan. Nordicphotos/EPA
Páfagarður Frans páfi er greinilega mikið ólíkindatól. Nú berast fréttir af því að í Bandaríkjaheimsókn sinni hafi hann meðal annars átt fund með Kim Davis, fulltrúanum á sýsluskrifstofu í smábæ í Kentucky, sem af trúarlegum ástæðum neitaði að gefa saman samkynhneigð pör.

Hún sat fimm daga í fangelsi fyrir vikið, en hún segir að páfi hafi hrósað sér fyrir hugrekkið og sagt henni að sýna styrk áfram.

Þá fer hann ófögrum orðum um Ignazio Marino, borgarstjórann í Róm, sem hefur vakið athygli fyrir stuðning sinn við hjónabönd samkynhneigðra og líknardráp.

„Hann þykist vera kaþólskur, það kom yfir hann allt í einu. Það gerist ekki þannig,“ sagði Frans páfi við blaðamenn.

Þá sagðist hann alls ekki hafa boðið borgarstjóranum að taka þátt í samkomu í Philadelphiu, sem borgarstjórinn segist hafa notað meðal annars til þess að safna fé til uppbyggingar í Rómarborg.

Þetta segir páfi eftir að hafa ítrekað boðað kærleika og miskunnsemi gagnvart öllum sem standast ekki ströngustu kröfur trúarinnar, og meðal annars talað óhræddur yfir hausamótunum á bandarískum ráðamönnum í heimsókn sinni þangað, hvatt þá til að taka opnum örmum á móti flóttafólki og innflytjendum, hætta vopnasölu og afnema dauðarefsingu.

Sýslufulltrúinn Kim Davis segir, í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér, að hún hafi aldrei átt von á því að hitta páfa. Hann hafi hins vegar verið vinsamlegur, sýnt sér einlæga umhyggju og verið mjög persónulegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×