Erlent

Herskip send á smyglaraskipin

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ítalski sjóherinn að störfum á Miðjarðarhafinu.
Ítalski sjóherinn að störfum á Miðjarðarhafinu. vísir/epa
Evrópusambandið er þessa dagana að senda sex herskip til Miðjarðarhafsins, þar sem hlutverk þeirra verður að elta uppi smyglaraskip.

Þetta er partur af þeim aðgerðum sem Evrópusambandið hefur samþykkt til að bregðast við flóttamannastraumnum yfir Miðjarðarhafið frá norðanverðri Afríku.

Meiningin er að stöðva skip eða báta, ef grunur leikur á að þau séu notuð til að smygla fólki. Skipin eða bátarnir verði síðan gerð upptæk eða send burt.

Til þessa hefur Evrópusambandið látið sér nægja að halda uppi eftirliti með skipaumferð og koma fólki í nauðum til bjargar.

Nýju aðgerðirnar takmarkast þó við alþjóðlegar siglingaleiðir, þannig að herskipunum sex verður til dæmis óheimilt að fara inn fyrir tólf mílna landhelgi Líbíu, en þaðan koma flestir flóttamennirnir.

Það sem af er árinu hafa meira en 130 þúsund flóttamenn komið yfir Miðjarðarhafið frá Afríku. Meira en 2.700 þeirra hafa drukknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×