Íslenski boltinn

Gary Martin: Engin heppni að ég varð markakóngur tvö ár í röð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Gary Martin hefur aðeins skorað tvö deildarmörk í sumar.
Gary Martin hefur aðeins skorað tvö deildarmörk í sumar. vísir/valli
„Við erum auðvitað bara svekktir, það er alltaf slæmt þegar stærsta lið landsins tapar 0-3 á heimavelli,“ sagði Gary Martin, leikmaður KR, svekktur eftir tapið fyrir Stjörnunni í dag.

„Við skiljum ekki alveg hvað er í gangi en svona er fótbolti, þú vinnur suma leiki og þú tapar öðrum. Það eru mörg góð lið í þessari deild og svona er fótbolti.“

Gary byrjaði á bekknum í dag og hann var pirraður yfir því.

„Auðvitað vil ég byrja leiki en svona er þetta, ég vel ekki liðið. Ég verð að gera mitt besta þegar ég kem inná og ég reyndi það þótt þetta væri erfið staða.“

Óviss um framhaldið

Gary sagðist ekkert vera farinn að hugsa út í framhaldið en að hann ætli sér ekki að sitja á bekknum á næsta tímabili.

„Ég veit ekki hvað ég geri í framhaldinu en ég veit að ég er 24 árs gamall og ég verð að spila. Ég hef tvö ár í röð verið markahæstur í deildinni og það var engin heppni. Ég mun einbeita mér að þessum tveimur leikjum, ég er sigurvegari og vill vinna þessa tvo leiki og svo sjáum við til með framtíðina,“ sagði Gary sem vildi ekki segja hvar framtíðin lægi.

„Markmiðið mitt er að spila, hvort sem það er hjá KR eða hjá öðru liði. Ég hef sannað það undanfarin ár og ég hef spilað í nokkrum stöðum á meðan. Það eina sem ég vill gera er að fara að spila aftur fótbolta og njóta þess.“

FH keypti titilinn

Gary gaf einnig viðtöl við aðra fjölmiðla að leik loknum. Þar sagði sumarið hafa verið martröð fyrir sig.

„Ég er að ég held búinn að byrja sex leiki í deildinni. Ég hef ekki staðið mig en hef heldur ekki fengið tækifæri,“ sagði Gary. Sumarið eru vonbrigði að hans mati.

„KR er byggt á velgengni, bikurum, en við höfum ekki náð í bikar. Þú getur samt ekki unnið deildina nema þú eyðir fáránlega miklum peningum eins og FH. Þeir keyptu deildina með mannskapnum sínum.” 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×