Innlent

Engin eftirsjá útvarpsstjóra: „Hvað eru þeir að reyna að skoðanakúga okkur?“

Atli Ísleifsson skrifar
Arnþrúður segist ekki sjá eftir orðalagi könnunarinnar á heimasíðu stöðvarinnar þar sem lesendur voru spurðir hvort þeir treystu múslímum.
Arnþrúður segist ekki sjá eftir orðalagi könnunarinnar á heimasíðu stöðvarinnar þar sem lesendur voru spurðir hvort þeir treystu múslímum. Vísir/Valli/Útvarp Saga
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu, segir að stöðin hafi enga formlega beiðni fengið, hvorki frá hljómsveitinni Ljótu hálfvitunum né Bubba Morthens, um að tónlist þeirra verði ekki spiluð á stöðinni.

„Þetta er eitthvað sem gerist í netheimum, en við erum í raunheimum hér. Við kaupum tónlist eftir löglegum leiðum. Ef þeir óska eftir einhverju slíku þá verða þeir að snúa sér til STEF. Þá mun STEF tilkynna okkur að þeir séu á bannlista,“ segir Arnþrúður.

Ljótu hálfvitarnir greindu frá því í tilkynningu á Facebook að Útvarpi Sögu væri hér með bannað spila lög sveitarinnar sína „svo lengi sem Útvarp Saga heldur áfram að ala á fordómum og mannhatri“. Vísaði sveitin þar til skoðanakönnunar á heimasíðu útvarpsstöðvarinnar þar sem spurt var hvort lesendur treystu múslímum. Bubbi Mortens fylgdi svo í kjölfarið og sagðist heldur ekki vilja að tónlist hans væri spiluð á stöðinni.

Bubbi er ósáttur við Útvarp Sögu.Vísir/GVA
Ekkert spilaðir á stöðinni

Útvarpsstjórinn segir að það hitti hins vegar þannig á í þessu tilfelli að Ljótu hálfvitarnir og Bubbi séu ekkert inni á spilunarlista stöðvarinnar. „Þeir þurfa því engar áhyggjur að hafa.“

Hún segir að stöðin hafi orðið við óskum Ljótu hálfvitanna á sínum tíma þegar þeir gáfu út fyrri diskinn sinn um að spila tónlist þeirra. „Þá óskuðu þeir eftir því að við bæði spiluðum þá og kynntum þá sérstaklega. Við tókum viðtal til að hjálpa þeim við að kynna sig. Að öðru leyti hafa þeir ekki verið spilaðir hér.“

Niðurstöðurnar í skoðanakönnuninni umdeildu. Smellið á myndina til að sjá hana stærri.
Ekki beiðir frá fleiri tónlistarmönnum

Arnþrúður segist alls ekki hafa fengið beiðnir eða vita um fleiri tónlistarmenn sem vilji ekki að tónlist þeirra sé spiluð á Útvarpi Sögu. „Nei, alls ekki. Við erum talmálsstöð og spilum minni tónlist en tónlistarstöðvarnar.“

Hún segir að henni þyki öll umræðan í tengslum við málið vera vitlaus. „Hvað eru þeir að reyna að skoðanakúga okkur? Þeir verða að fara út úr boxinu. Alvöru umræða grundvallast á því að það eru margvísleg sjónarmið sem koma fram og þau eru ekki öllum að skapi.“

Trúarbrögð ekki heilög

Arnþrúður segist ekki sjá eftir orðalagi könnunarinnar á heimasíðu stöðvarinnar þar sem lesendur voru spurðir hvort þeir treystu múslímum.

„Langt í frá. Sá sem les könnunina og tekur þátt í henni á það bara við sjálfan sig. Hún er ekkert skoðanamyndandi á nokkurn hátt. Við spyrjum reglulega um traust og trúverðugleika og annað. Trúarbrögð eru ekki það heilög að ekki megi fjalla um þau eða spyrja um þau. Svo mikið er víst. Tjáningarfrelsið er sterkara.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×