Erlent

Segir Vesturlönd bera sökina

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Assad Sýrlandsforseti nýtur stuðnings í Rússlandi.
Assad Sýrlandsforseti nýtur stuðnings í Rússlandi. NordicPhotos/AFP
Rússneska sjónvarpsstöðin RT sendi í gær út viðtal við Basher al Assad Sýrlandsforseta, þar sem hann segir að Vesturlönd verði að hætta að styðja hryðjuverkamenn í Sýrlandi.

Hann segir það vestrænan áróður að flóttafólkið frá Sýrlandi sé að flýja stjórn sína, heldur sé það á flótta undan hryðjuverkamönnum sem hafi stuðning Vesturlanda.

„Það er eins og Vesturlönd séu nú að gráta á flóttamennina með öðru auganu en miða vélbyssum á þá með hinu,“ sagði Assad í viðtalinu.

Rússnesk stjórnvöld hafa stutt Assad og veitt honum ýmiss konar hernaðaraðstoð, nú síðast með uppbyggingu herstöðvar. Þau hvetja Vesturlönd til að veita stjórnarher Assads liðsinni í baráttu við hryðjuverkasveitir. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hyggst brátt kynna þessa tillögu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Bandaríkin segja Assad hins vegar fyrir löngu hafa misst allan trúverðugleika.

Uppreisn gegn stjórn Assads hófst í Sýrlandi vorið 2011, þegar „arabíska vorið“ svonefnda var í hámarki. Assad tók strax til við að segja hryðjuverkamenn standa að baki mótmælunum og sendi herlið sitt til að berja þá niður af fullri hörku.

Þegar átök hörðnuðu tóku hópar herskárra íslamista og hryðjuverkamanna að hreiðra um sig í landinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×