Innlent

Borgaryfirvöld vilja að nýjar höfuðstöðvar rísi á Hörpureitnum

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Björn Blöndal formaður borgarráðs segir borgaryfirvöld vilja að uppbygging á hörpureitnum svokallaða hefjist sem fyrst.
Björn Blöndal formaður borgarráðs segir borgaryfirvöld vilja að uppbygging á hörpureitnum svokallaða hefjist sem fyrst. MYND/VÍSIR
Formaður borgarráðs Reykjavíkur segir ekki eftirsóknarvert að Hörpureiturinn standi tómur um ókomna tíð, verði fallið frá áformum um að byggja nýjar höfuðstöðvar Landsbankans á svæðinu. Borgin vilji sjá nýjar höfuðstöðvar rísa á reitnum.  

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði í fréttum Stöðvar 2 um helgina að bregðast þurfi við gagnrýni frá háttsettum stjórnmálamönnum um fyrirhugaða nýbyggingu höfuðstöðva bankans á Hörpureitnum svokallaða. Byggingaráformin hafa verið gagnrýnd harðlega, meðal annars af stjórnarþingmönnum og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra.

Bankaráð bankans hefur frestað hönnunarsamkeppni um reitinn sem hefjast átti í ágúst og segir Steinþór að jafnvel komi til greina að hætta við bygginguna. Fari svo verður borgin af tugum milljónum króna í fasteignagjöld, auk þess sem mikil óvissa skapast um framtíð reitsins.

Björn Blöndal, formaður borgarráðs, segir að borgin vilji að framkvæmdir hefjist sem fyrst.

„Við viljum auðvitað ekki að þetta sé bara í einhverri biðstöðu um ókomna tíð. Miðað við það sem hefur verið kynnt fyrir okkur þá verður þarna fjölbreytt þjónusta. Verslanir, vissulega bankastarfsemi og önnur þjónusta. Það gefur líka möguleika á breyta nýtingu á því rými sem Landsbankinn er í fyrir í húsum í miðborginni, þá sérstaklega kannski gamla landsbankahúsið. Þannig að það er okkur ekkert á móti skapi, nema síður sé, að þessi starfsemi sé þarna,“ segir hann.

Falli bankinn frá byggingaráformum komi það til að flækja aðra uppbyggingu á reitnum.

„Uppbyggingin tengist að hluta til og það er best að hún fari fram á svipuðum tíma og dragist ekki yfir mjög langt tímabil. Þannig að við auðvitað vonumst til að þetta fari af stað fyrr en síðar,“ segir Björn Blöndal. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×