Sólveig hlaut íslenskan ríkisborgararétt árið 2006. Hún sérhæfði sig í heimildamyndagerð framan af ferlinum en sneri sér svo í auknum mæli að leiknum myndum. Meðal mynda hennar eru „Haut les cæurs“, Nakin Lulu og Stormviðri sem var valin til þátttöku á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2003.
Í júní fóru svo fram tökur á nýrri mynd Sólveigar, Sundáhrifin, hér á landi. Um er að ræða þriðju og síðustu myndina í því sem mætti kalla þríleik sem inniheldur einnig myndirnar Skrapp út og Drottningin af Montreuil.
Ítarlega samantekt á ferli Sólveigar má finna á kvikmynda- og sjónvarpsvefnum Klapptré. Þar er meðal annars vísað í viðtal Le Monde við Sólveigu í upphafi árs 2014. Var hún spurð að því hvernig hún færi að því að vera svo iðin.
„Hvað drífur mig áfram? Kannski það að ég veit eins og allir aðrir að lífið getur endað skyndilega. Ég hugsa held ég einfaldlega meira um það en aðrir.”
Le Monde er einnig með ítarlega umfjöllun um Sólveigu á vef sínum, sjá hér.
Fjölmargir hafa minnst Sólveigar í kjölfar tíðinda af andláti hennar.