Fótbolti

Lét seðlum rigna yfir fráfarandi forseta knattspyrnusambandsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ein umdeildasta ákvörðun knattspyrnusambandsins undir stjórn Blatters var að úthluta Katar Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.
Ein umdeildasta ákvörðun knattspyrnusambandsins undir stjórn Blatters var að úthluta Katar Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu. Vísir/Getty
Enski grínistinn Simon Brodkin, einnig þekktur sem Lee Nelson, náði á einhvern ótrúlegan hátt að trufla fyrsta blaðamannafund Sepp Blatter í tæplega tvo mánuði með því að láta seðlum rigna yfir fráfarandi forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Tilkynnti Brodkin að um væri að ræða opinbera umsókn Norður-Kóreu um að halda Heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2026.

Blatter hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarna mánuði eftir að hann ákvað að segja af sér sem forseti knattspyrnusambandsins í upphafi júní. Kallað var til blaðamannafunds í dag vegna tilkynningar um að kosningar um næsta forseta sambandsins færu fram þann 26. febrúar næstkomandi.

Óhætt er að segja að fyrsti blaðamannafundur Blatters í tæplega tvo mánuði gat ekki hafist verr fyrir Svisslendinginn en undir hans stjórn hefur knattspyrnusambandið legið undir mikilli gagnrýni fyrir mútuþægni og spillingu.

Myndbönd og myndir frá atvikinu má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×