Innlent

Dæmdur sekur en ætlar ekki að borga: Sævar Poetrix hefur litlar áhyggjur af því að fara í fangelsi

Bjarki Ármannsson skrifar
Sævar mætti ekki fyrir héraðsdóm vegna kannabis-ákæru.
Sævar mætti ekki fyrir héraðsdóm vegna kannabis-ákæru. Mynd/Sævar
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Sævar Poetrix, rappara og rithöfund, til að greiða 300 þúsund króna sekt fyrir vörslu kannabiss. Sævar hyggst ekki greiða sektina, en hann hefur ítrekað lýst því yfir að hann telji sig ekki hafa gert neitt rangt og að honum beri ekki að hlýða úrskurði dómsins.

„Það sem er merkilegast í þessu öllu saman er að dómurinn færir engin rök fyrir niðurstöðunni og það virðist ekki skipta neinu að lögreglan brjóti á stjórnarskránni, bæði gagnvart friðhelgi einkalífsins og með því að fara inn án dómsúrskurðar,“ segir Sævar, en lögregla gerði húsleit hjá honum þann 16. september síðastliðinn, á afmæli hans, og fann þar poka með níutíu grömmum af kannabisefni.

Sævar lýsti því yfir í ítarlegu bréfi til dómstólsins fyrir fyrirtöku málsins að hann hygðist ekki mæta fyrir dóm og að það væri beinlínis skylda sín að hlýða ekki „ranglæti“ réttarkerfisins. Hann segist ekki hafa skaðað neinn með því að eiga og neyta fíkniefna og að rökleysið sem felist í því að ákæra hann fyrir það „ofbjóði siðferðisvitund“ hans.

Jóhannes Haukur leikari vakti mikla athygli fyrir neikvæð ummæli um ákvörðun Sævars.Vísir
Þarf að borga í næstu viku

Dómur var kveðinn upp yfir Sævari þann 1. júlí síðastliðinn og honum gert að greiða sektina innan fjögurra vikna. Ef hann borgar ekki í næstu viku, kveður dómurinn á um að hann sæti fangelsi í sextán daga.

„Ég veit ekki í hvaða fangelsi þeir ætla að troða mér, það er ekki pláss neins staðar,“ segir Sævar. „Ég hef litlar áhyggjur af því. Maður tekur bara góða bók og jógadýnu og notar þetta í betrun, ef að svo skyldi fara. Það gerist ekkert hræðilegt í fangelsi, nema ég kem kannski út skólaður í kókaíninnflutningi eða eitthvað.“

Vísir greindi frá því í síðasta mánuði að lögregla væri að reyna að hafa uppi á Sævari til að birta honum útivistarfyrirkall, en það jafngildir því að viðkomandi játi brot sitt með því að mæta ekki fyrir dóm. Svo fór að lögmanni Sævars var birt fyrirkallið þann 23. júní og Sævar dæmdur stuttu síðar.

Sjá einnig: „Þetta eru bara dópistar“

„Eins og ég hef sagt áður, þá er þessi dómstóll dauður og ómerkur fyrir mér,“ segir hann. „Ef við erum með stjórnarskrá sem á að stýra lögum og reglum og héraðsdómstóll getur ekki farið eftir honum, hvað eigum við þá með svona dómstól að gera? Eigum við að taka mark á þessu? Ég er ekki lögfróðasti maðurinn en stjórnarskráin er eiginlega svona trompið í spilastokknum.“

Sævar gerir einnig athugasemd við það að héraðsdómur dæmir verjanda hans tæpar sex hundruð þúsund krónur í málsvarnarþóknun.

„Fyrir eina greinargerð og að mæta tvisvar. Ég var vissulega í sambandi við lögmanninn minn og hann vann fyrir mig en ég velti því fyrir mér hvaða lögmaður á skilið hundruð þúsunda á klukkutímann fyrir að hoppa inn í héraðsdóm.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×