Erlent

Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna: Stúlkur brenndar lifandi í Suður-Súdan

Atli Ísleifsson skrifar
Stríð hefur staðið í Suður-Súdan frá árslokum 2013.
Stríð hefur staðið í Suður-Súdan frá árslokum 2013. Vísir/AP
Hermenn í Suður-Súdan hafa rænt og nauðgað fleiri hundruð stúlkna, auk þess að brenna margar þeirra lifandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um ástandið í Afríkuríkinu sem bendir til að ofbeldið í landinu hafi náð áður óþekktum hæðum.

„Við verðum að fá ótakmarkaðan aðgang til að geta rannsakað þessar ásakanir,“ segir talsmaður Sameinuðu þjóðanna sem hefur rannsakað meinta glæpi stríðandi fylkinga í landinu.

Skýrslan var birt fyrr í vikunni og byggir á viðtölum við 115 fórnarlömb og sjónarvotta frá Unity State í norðurhluta landsins þar sem harðir bardagar hafa staðið milli stjórnarhersins og sveita uppreisnarmanna að undanförnu.

Í skýrslunni kemur fram að hermenn hafi rænt að minnsta kosti 172 stúlkum og konum og beitt þær grimmilegu ofbeldi. Fjölmargar hafi verið dregnar út af heimilum sínum og nauðgað, oft fyrir framan börn sín, af hópi hermanna. Þá séu dæmi um að margar þeirra hafi verið brenndar lifandi eftir að hafa verið nauðgað.

Hundruð þúsunda manna hafa neyðst til að flýja heimili sín í landinu vegna stríðsins sem staðið hefur síðan desember 2013 eftir að Salva Kiir Mayardit, forseti landsins, sakaði þáverandi varaforsetann Riek Machar um tilraun til valdaráns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×