Innlent

Hljóðstig á Secret Solstice ekki yfir mörk hávaðareglugerðar

Atli Ísleifsson skrifar
Skipulag svæðisins var breytt frá fyrra ári en nú snéru tónleikasviðin utanhúss í átt að Suðurlandsbraut.
Skipulag svæðisins var breytt frá fyrra ári en nú snéru tónleikasviðin utanhúss í átt að Suðurlandsbraut. Vísir/Andri Marínó
Mælingar fulltrúa Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar sýna að hljóðstig á tónlistarhátíðinni Secret Solstice hafi ekki farið yfir mörk reglugerðar inni á hátíðarsvæðinu.

Fulltrúarnir mældu hljóðstig á viðburðum hátíðarinnar í þá þrjá daga sem hátíðin stóð, en jafnframt var fylgst með almennri umgengni, ástandi í matarvögnum og fleiru.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að einnig hafi verið farið í eitt heimahús þar sem íbúi hafði óskað eftir hávaðamælingu vegna reynslu sinnar frá fyrra ári. „Ekki þótti ástæða til að mæla hljóðstig í eða við húsið þar sem skynmat dugði til að meta að ekki var um hávaða eða ónæði að ræða. Þetta bendir til þess að hljóðstjórnun á viðburðunum hafi verið góð.

Skipulag svæðisins var breytt frá fyrra ári en nú snéru tónleikasviðin utanhúss í átt að Suðurlandsbraut.  Fáar kvartanir hafa borist Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vegna hávaða frá hátíðinni en þær eru frá íbúum sunnan svæðisins.  Þá barst ábending  frá íbúa í Hvaleyrarholti í Hafnarfirði auk Garðabæ og Kópavogi um að þar heyrðist ómur frá tónleikunum,“ segir í fréttinni.

Alvarleg athugasemd við einn matvagn

Heilbrigðiseftirlitið gerði alvarlega athugasemd við einn matvagn á hátíðarsvæðinu þar sem umgengni og meðhöndlun matvæla var ófullnægjandi. „Kröfum um úrbætur var strax orðið við. Starfsfólk hátíðarinnar sáu um að týna upp rusl inni á svæðinu en hinsvegar hefði mátt fjölga ruslaílátum við göngustíga utan svæðisins þessa daga. Almennt var umgengni um svæðið góð.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur telur að þrátt fyrir að hljóðstig hafi ekki farið yfir mörk reglugerðar inni á svæðinu  megi að gera enn betur til að takmarka ónæði í nágrenninu og mun fara yfir hljóðvistarmál með aðstandendum hátíðarinnar verði framhald á hátíðinni á þessum stað.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×