Fótbolti

Torino keypti Birki á eina milljón evra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason mun spila með Torino í ítölsku A-deildinni á næstu leiktíð en Torino hefur gengið frá kaupunum á Birkir frá b-deildarliðinu Pescara.

Torino var eitt af mörgum félögum sem voru á eftir Birki en meðal annarra liða voru Palermo, Empoli, nýliðarnir í Carpi og enska félagið Leeds United.

Sport Italia og Sky Sport Italia greina frá því að kaupverðið hafi verið ein milljón evra eða um 148 milljónir íslenskra króna.

Birkir fer ekki í læknisskoðun fyrr en á mánudaginn og því verður ekki gengið endanlega frá samningum fyrr en eftir helgi. Birkir mun samkvæmt heimildum ítalskra fjölmiðla gera þriggja ára samning.

Birkir Bjarnason er fastamaður í íslenska landsliðinu og hann átti mjög gott tímabil með Pescara í b-deildinni þar sem hann skorað 12 mörk í deild og úrslitakeppni. Pescara var hársbreidda frá því að komast upp í A-deildina.

Birkir er 27 ára gamall og hefur spilað á Ítalíu frá 2012. Hann lék með Sampdoria í A-deildinni 2013-14 og með Pescara í A-deildinni 2012-13. Birkir hefur einnig spilað í Belgíu og í Noregi þar sem hann hóf feril sinn í meistaraflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×