Enski boltinn

Mini Messi í enska boltanum er hún en ekki hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fran Kirby.
Fran Kirby. Vísir/Getty
Lionel Messi enska fótboltans spilar ekki með karlalandsliði Englendinga heldur kvennalandsliðinu sem stendur nú í ströngu á HM í fótbolta í Kanada.

Enska kvennalandsliðið í fótbolta kemst áfram í sextán liða úrslitin á HM með sigri á Kólumbíu í lokaumferð riðlakeppninnar í kvöld og þar mun liðið treysta á framlag frá hinni snaggaralegu Fran Kirby sem hefur fengið gælunafnið „Mini Messi."

Hin 21 árs gamla Fran Kirby skoraði mjög laglegt mark í 2-1 sigri á Mexíkó í síðasta leik sem var hennar fyrsti í byrjunarliðinu á heimsmeistaramótinu. Það má sjá mark hennar hér fyrir neðan.

„Ef þær kólumbísku ætla að sparka mig niður þá veit ég að ég er vinna. Ég mun því bara brosa til þeirra og halda áfram," sagði hin einlæga Fran Kirby í viðtali við BBC.

„Það mun örugglega pirra þær enn meira og ég hef því ekki miklar áhyggjur," sagði Kirby en þær kólumbísku hafa spilað fast í mótinu til þessa.

Það voru ekki ensku blaðamennirnir sem kölluðu Fran Kirby „Mini Messi" heldur þjálfarinn Mark Sampson. Honum fannst leikstíll hennar minna það mikið á besta knattspyrnumann heims, Lionel Messi, leikmann Barcelona og argentínska landsliðsins.

Fran Kirby átti mjög góðan leik á móti Mexíkó. Hún grínaðist með það að pabbi hennar, sem er vanalega hennar harðasti gagnrýnandi, hafi verið óvenju hljóður eftir Mexíkó-leikinn.

„Það kom mér á óvart að fá ekki meiri gagnrýni frá pabba og bróður mínum því þeir eru vanir að láta mig heyra það eftir leiki. Pabbi veit hvað ég hef lagt mikið á mig til að komast hingað og þeir hafa stutt mig mikið. Pabbi áttaði sig kannski á því að ég var svo hátt uppi eftir leikinn að það væri engin ástæða til að segja eitthvað," sagði Kirby.

Fran Kirby skoraði 24 mörk í 18 leikjum með Reading í WSL 2 deildinni á síðasta tímabili og hefur skorað 11 mörk í fyrstu 9 leikjum á þessum tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×