Enski boltinn

Carragher: Ekki hægt að gagnrýna Ferguson fyrir að láta Pogba fara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba fær risasamning í sumar.
Paul Pogba fær risasamning í sumar. vísir/getty
Jamie Carragher, sparkspekingur Sky Sports, segir að ekki eigi að gagnrýna Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United, fyrir að hafa látið Paul Pogba fara á sínum tíma.

Pogba var ekki í framtíðaráformum Skotans þegar hann sleppti honum til Juventus árið 2012, en Frakkinn ungi var þá aðeins búinn að koma sjö sinnum við sögu hjá aðalliði Manchester United.

Hann er í dag einn eftirsóttasti leikmaður heims og ekki varð áhuginn á honum minni eftir frábæra frammistöðu á Santiago Bernabéu í gær þar sem hann lagði upp markið sem kom Juventus í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

"Eflaust horfa menn til baka núna með smá eftirsjá og væntanlega væri Louis van Gaal til í að vera með Pogba í hópnum fyrir næstu leiktíð. Það sama má segja um Man. City og Chelsea," sagði Carragher eftir leikinn.

"Það er erfitt að efast um ákvarðanir Sir Alex hvað varðar að fá unga leikmenn til félagsins. Hann var einn af þeim allra bestu í því."

"Ég held að mergur málsins hafi verið að Pogba var orðinn aðeins of góður með sig og vildi fá laun eins og hann væri byrjunarliðsmaður þegar hann var enn í varaliðinu."

"Miðað við það sem lið þurfa að borga fyrir hann í dag er auðvelt að segja það hefði borgað sig fyrir United að gefa honum það sem hann vildi, en þannig ákvarðanir hafa áhrif á félagið og aðrir ungir leikmenn heyra og vita af því."

"Líklega hafði Sir Alex rétt fyrir sér þarna eins og svo oft áður þó menn sjái kannski aðeins eftir ákvörðuninni í dag. Menn verða að hafa reglur og standa við hugmyndafræði sína þegar kemur að ungum leikmönnum," segir Jamie Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×