Fótbolti

Guardiola: Betra fyrir Kehl að halda bara kjafti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pep Guardiola óskar Dortmund til hamingju.
Pep Guardiola óskar Dortmund til hamingju. vísir/getty
Pep Guardiola, þjálfari Bayern München, sendi Sebastian Kehl, leikmanni Dortmund, væna pillu á blaðamannafundi í dag.

Dortmund eyðilagði möguleika Bayern á að vinna þrennuna í ár þegar liðið hafði betur gegn Þýskalandsmeisturunum í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum þýska bikarsins í vikunni.

Bayern skoraði aðeins úr einni spyrnu af fjórum; tvær fóru hátt yfir og Mario Götze lét verja frá sér.

Kehl sagði í viðtali eftir leik að Bayern þyrfti að fara að æfa vítaspyrnur þar sem þær voru svo slakar í bikarleiknum, en það fannst Guardiola ekkert fyndið.

„Þegar þú ert 35 stigum á eftir liði í deildinni er betra að halda bara kjafti. Það ráðlegg ég Sebastian Kehl að gera,“ sagði Guardiola við blaðamenn í dag.

Bayern er nú þegar orðið meistari þriðja árið í röð og annað árið í röð undir stjórn Guardiola, en liðið á einnig möguleika á að vinna Meistaradeildina.

„Við getum bara æft okkur meira núna því við erum nú þegar búnir að vinna deildina. Ég hef aldrei kennt öðrum um þegar við töpum fyrir Dortmund þrátt fyrir að ég hafi tvívegis getað sagt eitthvað við þá. Ég óska þeim bara til hamingju með að vera komnir í bikarúrslitin,“ sagði Pep Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×