Innlent

Þessi sveitarfélög hafa enn ekki sett sér siðareglur

Atli Ísleifsson skrifar
Reykjanesbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem hafa ekki sett sér siðareglur.
Reykjanesbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem hafa ekki sett sér siðareglur. Vísir/GVA
59 sveitarfélög af 74 hafa sett sér siðareglur og sent innanríkisráðuneytinu til staðfestingar. Þetta kemur fram í samantekt ráðuneytisins.

Í sveitarstjórnarlögum frá 2011 er kveðið á um skyldu sveitarstjórna að setja sér siðareglur. Ákvæðið er nýmæli og sett í kjölfar umræðu um siðareglur kjörinna fulltrúa og mikilvægi þeirra. Í fréttinni segir að vitað sé um nokkur sveitarfélög í viðbót hvar undirbúningur að gerð siðareglna er á lokastigi.

„Siðareglur sem sveitarstjórn setur gilda fyrir fulltrúa í sveitarstjórn sem og nefndir og ráð sveitarstjórnar. Siðareglurnar þurfa staðfestingu innanríkisráðuneytisins og skulu þær birtar opinberlega á vefsíðu sveitarfélaga eða á annan sambærilegan hátt og eru þannig aðgengilegar öllum.

Siðareglur halda gildi sínu þar til annað er ákveðið af viðkomandi sveitarstjórn eða þeim sem síðar eru kjörnar. Á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga starfar siðanefnd og hefur hún gefið út leiðbeiningar til nýrra sveitarstjórna um gerð siðareglna og hlutverk siðanefndar.“

Í yfirliti ráðuneytisins segir að eftirfarandi sveitarfélög eigi enn eftir að setja sér siðareglur og senda til ráðuneytisins:

  • Akrahreppur, 
  • Bolungarvíkurkaupstaður, 
  • Grímsnes- og Grafningshreppur, 
  • Hörgársveit, 
  • Ísafjarðarbær, 
  • Reykjanesbær, 
  • Skorradalshreppur, 
  • Strandabyggð, 
  • Stykkishólmsbær, 
  • Súðavíkurhreppur, 
  • Svalbarðshreppur, 
  • Svalbarðsstrandarhreppur, 
  • Sveitarfélagið Skagaströnd, 
  • Tjörneshreppur og 
  • Vestmannaeyjabær. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×