Fótbolti

Sænskt knattspyrnulið átti bókuð sæti í fluginu sem fórst

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Dalkurd.se
Leikmenn, þjálfarar og starfsmenn sænska C-deildarliðið Dalkurd FF eru í áfalli eftir að hafa breytt ferðaáætlunum sínum skömmu fyrir flug Germanwings frá Barcelona til Düsseldorf í gær.

Umrædd flugvél fórst í frönsku Ölpunum í gær eins og ítarlega hefur verið fjallað um. 140 manns voru um borð í vélinni og fórust allir.

„Við áttum upphaflega að vera í þessu flugi. Við innrituðum okkur með öllum þessum farþegum. Það er súrrealískt,“ sagði Adil Kizil, einn forráðamanna félagsins, í samtali við Aftonbladet.

„Þegar við komum á flugvöllinn í Barcelona voru fjögur flug [Germanwings] á leið frá Barcelona á sama tíma - öll á leið norður yfir Alpana.“

Ákveðið var að breyta ferðatilhögun hópsins þar sem biðtíminn í Düsseldorf þótti of langur. Var honum skipt á hinar þrjár vélarnar og komust allir heilir á höldnu heim til Svíþjóðar.

„Fjögur flug og við vorum með leikmenn í þremur þeirra. Við skulum bara segja að við höfðum heppnina með okkur,“ sagði Kizil og bætti við að leikmennirnir væru allir í sjokki og að hugur þeirra væri hjá fjölskyldum þeirra sem létu lífið.

„Allt þetta fólk sem var í fluginu sem fórst var í innrituninni og þar sem við vorum öll að fara með sama flugfélaginu fórum við öll að sömu hliðunum,“ bætti hann við.

Dalkurd er frá Borlänge í Svíþjóð og var stofnað árið 2004 af kúrdískum innflytjendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×