Innlent

Stjórnvöld hafa ekki brugðist við auknum fjölda ferðamanna

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Greiningardeild Íslandsbanka gaf í dag út ítarlega skýrslu um íslenska ferðaþjónustu. Skýrslan er enn einn vitnisburðurinn um ótrúlega fjölgun erlendra ferðamanna undanfarin ár. Þannig telur bankinn að rekja megi þriðjung hagvaxtar frá árinu 2010 til ferðaþjónustunnar og að um 45% af fjölgun starfa frá 2010 megi rekja til hennar. Íslandsbanki áætlar að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustunni árið 2015 verði 342 milljarðar króna og þá er áætlað að 1.350 þúsund ferðamenn heimsæki Ísland á árinu sem er fjölgun um 25% frá 2014.

Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, segir mikilvægt að staldra við og spyrja hvort greinin vaxi of hratt.

„Þó að við fögnum að sjálfsögðu auknum fjölbreytileika í gjaldeyrisöflun og segjum að þessi vöxtur ferðaþjónustunnar hafi í rauninni aukið stöðugleika hvað það varðar, að þá viljum við heldur ekki láta hana vaxa upp í að vera yfir helmingur af gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Því það getur þá orðið uppruni óstöðugleika aftur,“ segir Ingólfur.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að ekki sé reiknað með að ferðaþjónustan muni vaxa svona ört um ókomna tíð og því sé þessi fjölgun ekki áhyggjuefni.

„Fyrst og fremst er áhyggjuefni innviðauppbygging sem hefur ekki fylgt þessum mikla vexti. Öll innviðauppbygging, samgöngur og annað, er eitthvað sem stjórnvöld hafa því miður ekki brugðist nógu hratt við og við verðum að treysta því að það verði núna byggt upp hratt og örugglega,“ segir Helga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×