Innlent

Skíðamenn greiddu fyrir björgunina

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Gönguskíðamennirnir sem voru sóttir á Vatnajökul í gær, greiddu fyrir björgunina en ætla að gera kröfu á tryggingafélög sín eftir að heim er komið. Þeir voru miður sín yfir því að hafa virt varnaðarorð björgunarmanna að vettugi.

Hörður Már Harðarson formaður Landsbjargar segir að það hafi ekki gerst áður að menn í raunverulegri hættu hafi greitt fyrir aðstoð björgunarsveita.  Það sé þó mikil pressa á það í samfélaginu að opna umræðu um þau mál. Fólk hafi þó stundum borgað ef það hafi farið gegn fyrirmælum um lokanir eða fengið aðstoð við bifreiðar eða annað án þess að nein hætta væri á ferðum.

Á sjötta tug björgunarmanna, á tíu jeppum og þremur snjóbílum, sóttu í gær tvo erlenda gönguskíðamenn sem voru á göngu yfir Vatnajökul. Mennirnir voru heilir á húfi þegar að þeim var komið seinnipartinn í gær en mikið af búnaði þeirra var ónýtur eða fokinn burt. Björgunarsveitir höfðu áður komið hópnum til aðstoðar og flutt einn félaga þeirra niður af jöklinum.

Þá voru hinir hvattir til að snúa til byggða vegna slæms veðurútlits en virtu það að vettugi. Þar sem ferðalangarnir höfðu ekki farið að ráðleggingum greiddu þeir útlagðan kostnað við björgunina.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×