Innlent

Konan var á vettvangi þegar lögreglu bar að

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Atvikið átti sér stað í heimahúsi í Hafnarfirði.
Atvikið átti sér stað í heimahúsi í Hafnarfirði. Vísir/AntonBrink

Kona á sextugsaldri er í haldi lögreglu vegna mannsláts í Hafnarfirði sem talið er að hafi borið að með saknæmum hætti. Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir konunni síðar í dag.



Talið er að banameinið hafi verið hnífstunga en Kristján Ingi Kristjánsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við fréttastofu að það yrði ekki ljóst fyrr en að lokinni krufningu. Hin grunaða, sem er fædd 1959, og hinn látni, sem er rúmlega fertugur, eru talin hafa verið sambúðarfólk en atvikið átti sér stað í heimahúsi í Hafnarfirði.



„Lögreglan fékk tilkynningu um þetta um þrjú leytið í gær og svo tilkynningu um mannslát og fór á vettvang og í ljós kom að hinn látni var með stunguáverka á brjóstkassa,“ sagði Kristján Ingi í hádegisfréttum Bylgjunnar.



Og hvar var hin grunaða á þessum tímapunkti?

„Á vettvangi,“ sagði Kristján.



Vettvangsrannsókn lauk síðdegis í gær og var hin grunaða yfirheyrð í gærkvöldi. Lögreglunni er einungis heimilt að halda hinni handteknu í allt að sólarhring samkvæmt sakamálalögum nema krafist verði gæsluvarðhalds og það samþykkt.



Kristján sagðist ekki geta tjáð sig um hvort ætlað banavopn hefði fundist. „Nú get ég ekki tjáð mig um það á þessari stundu,“ sagði Kristján sem reiknaði með því að krafist yrði gæsluvarðhalds yfir konunni í dag. 



Frekari fréttir verða sagðar af þessu máli á Vísir.is og Bylgjunni um leið og þær berast og í kvöldfréttum klukkan hálfsjö. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×