Innlent

„Svartur laugardagur fyrir tjáningarfrelsið“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sjón er forseti PEN á Íslandi.
Sjón er forseti PEN á Íslandi. vísir/valli/afp
PEN-félögin á Norðurlöndum hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna skotárásanna í Kaupmannahöfn í gær. PEN samtökin eru alþjóðasamtök rithöfunda á norðurlöndunum. 

„Skotárásin á laugardagsfundinn í Kaupmannahöfn, þar sem fólk var samankomið til þess að ræða tjáningarfrelsið andspænis guðlastinu, og sú sem í framhaldinu var framin við samkunduhús Gyðinga í borginni, eru hrollvekjandi áminning um að einnig í hinum opnu samfélögum Norðurlanda steðjar ógn að þeim grunngildum sem taka til frjálsra skoðanaskipta í veraldlegu samfélagi. Við fordæmum þessa grófu tilraun til kúgunar og hörmum mannslífin sem hún kostaði,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar segir einnig að atburðirnir eigi sér stað á 25 ára afmæli dauðadóms íranska klerkaveldisins yfir bresk-indverska rithöfundinum Salman Rushdie og undirstriki að tjáningarfrelsið nær yfir landamæri og gengur þvert á menningarheima.

„Í dag eru allt, allt, of mörg samfélög þar sem rithöfundar, listamenn og skopmyndateiknarar eru beittir ritskoðun og ofbeldi. Norrænu PEN félögin munu halda áfram, jafnt heima sem að heiman, að berjast fyrir rétti þeirra til að tjá sig án þess að vera ofsóttir.“

PEN samtökin telja einnig að virðing fyrir tjáningarfrelsinu og hvatning til beittrar samfélagsgagnrýni í ólíkum miðlum eigi sér langa sögu á  Norðurlöndum.

„Nýleg alþjóðleg úttekt setti Danmörku í efstu sæti lista yfir frjáls samfélög. Við munum ekki láta öfl umburðarleysis eyðileggja það með sínum grófu brögðum.“

Yfirlýsingin kemur frá:

Dansk PEN

Norsk P.E.N.

PEN á Íslandi

Suomen PEN

Svenska P.E.N.


Tengdar fréttir

Skotárás í Kaupmannahöfn

Allt að fjörutíu skotum var hleypt af við menningarhúsið Krudttønden á Austurbrú í Kaupmannahöfn í dag og er gríðarlegur viðbúnaður hjá lögreglu sem segir fertugan Dana hafa látið lífið í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×