Innlent

"Hörkugaddur framundan“

Birgir Olgeirsson skrifar
Spákort fyrir laugardagsmorgun.
Spákort fyrir laugardagsmorgun. vedur.is
Nú þarf að huga að kuldagöllunum því búast má við að Þorrinn, fjórði mánuður vetrar, læsi kuldaklóm í flest alla Íslendinga næstkomandi laugardagsmorgun. „Það er bara hörkugaddur framundan,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um væntanlegt kuldakast.

Þorsteinn býst við að frost fari niður í 17 - 18 stig í innsveitum á laugardagsmorgun og þá þarf ekki aðeins að velja hlýjar flíkur heldur einnig að huga að ofnum og lögnum til að tryggja að ekki frjósi í þeim.

Þó spáin geri ráð fyrir ögn hlýrra veðri á sunnudag þá eru það engin sérstök tíðindi sé tekið mið af storminum sem mun herja á Suður- og Austurlandi með éljagangi og slæmu ferðaveðri.

Á mánudag er gert ráð fyrir allhvassri eða hvassri norðanátt og éljum en bjartviðri á Suður- og Vesturlandi. Áfram verður kalt í veðri sem og á þriðjudag en þá verður áttin orðin austlæg með éljum.

Á miðvikudag eru líkur á austanhvassviðri með snjókomu eða éljum.

Fylgstu með á veðurvef Vísis. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×