Innlent

Öll vinnan við ESB-umsóknina nýtist sé pólitískur vilji til þess

Atli Ísleifsson skrifar
Björg Thorarensen var varaformaður samninganefndar Íslands vegna aðildarumsóknarinnar og formaður samningahóps um lagamál.
Björg Thorarensen var varaformaður samninganefndar Íslands vegna aðildarumsóknarinnar og formaður samningahóps um lagamál. Vísir/Getty
„Ég tel ótvírætt að öll sú vinna sem átti sér stað á þessum árum kæmi í mjög góðar þarfir,“ segir Björg Thorarensen, lagaprófessor, aðspurð um hvort sú vinna sem fram fór í tengslum við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu myndi nýtast, tæki ný ríkisstjórn ákvörðun um að taka upp viðræður að nýju.

Björg var varaformaður samninganefndar Íslands vegna aðildarumsóknarinnar og formaður samningahóps um lagamál. „Vinnan sem fram fór nýtist auðvitað að einhverju marki. Það er búið að gera ítarlega greiningarvinnu á íslenskum rétti, lögum og reglum og því sem þarf að breyta og þeim snertiflötum sem þarf að fara yfir.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í viðtali í þættinum Sprengisandi þann 4. janúar síðastliðinn að sú vinna sem lögð hefði verið í umsóknina og viðræðurnar væru lítils virði í dag.

„Eins og forsætisráðherra segir – að það sé ekkert gagn í þessari vinnu – þá er það rétt eins langt og það nær, ef pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar er ekki til staðar,“ segir Björg. „Ef það er ekki pólitískur áhugi á að nýta þessa vinnu til neins þá er það auðvitað rétt. En þetta fyrst og fremst pólitískt mat forsætisráðherra. Þó að greiningarvinnan geti nýst þá breytist löggjöfin ört og það eru að verða sex ár síðan þessi vinna hófst.“

Björg leggur áherslu á að óbeinn ávinningur aðildarviðræðnanna hafi einnig verið mikill. „Viðræðurnar nýttust þannig að þær kynntu betur starfsemi Evrópusambandsins þannig að almenningur á nú betri kost á að taka afstöðu bæði til kosta og galla sambandsins. Svo tel ég að íslenskir embættismenn hafi fengið mjög góða innsýn í störf sambandsins. Það komu ótrúlega margir að þessari vinnu og þessi reynsla gerir íslenska embættismenn betur upplýsta um ýmis atriði sem gagnast við framkvæmd EES-samningnum.“

Þá nefnir Björg að hún telji Alþingi, sérstaklega utanríkismálanefnd, hafa fengið ágætis æfingu í hvernig megi undirbúa virka þátttöku þingsins í svo mikilvægu utanríkismáli og aðhald með ríkisstjórninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×