Innlent

„Betur hefði farið á því að einhver af æðstu embættismönnum þjóðarinnar hefði mætt“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, mætti ekki í gönguna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, mætti ekki í gönguna. vísir/afp
Forsætisráðuneytið hefur nú sent frá sér yfirlýsingu vegna samstöðugöngunnar í París en íslensk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir það að enginn úr ríkisstjórn Íslands hafi mætt í gönguna.

Enginn íslenskur ráðherra fór á samstöðufundinn í París, þar sem allt að milljón manns komu saman. Þar voru þjóðarleiðtogar víðsvegar að úr heiminum. Rúmlega 40 þjóðarleiðtogar gengu hönd í hönd um götur borgarinnar.

Nína Björk Jónsdóttir, sendiráðunautur í París, var fulltrúi Íslands í göngunni.

Forsætisráðuneytið vill koma á framfæri að franska sendiráðið á Íslandi hafi áréttað við íslensk stjórnvöld að frönsk yfirvöld séu þakklát fyrir viðbrögð og samstöðu Íslendinga í málinu og sýna því fullan skilning að staðgengill sendiherra hafi tekið þátt í samstöðugöngunni í París fyrir hönd landsins, en ekki forseti Íslands eða ráðherra úr ríkisstjórn.

Nína Björk, staðgengill sendiherra, var fulltrúi Íslands í Je Suis Charlie göngunni. Hér er hún aðstoðarborgarstjórum Parísarísarborgar og sendiherra Tadjikistan.mynd/utanríkisráðuneytið
„Orðsending frá franska sendiráðinu til stjórnvalda um þátttöku í göngunni barst skrifstofu forseta Íslands, forsætisráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu undir kvöld síðastliðinn föstudag. Ekki var um að ræða boð til einstakra embættismanna, heldur var það almenns eðlis,“ segir í tilkynningunni. 

Að ósk forsætisráðherra var kannað hvort hann gæti tekið þátt í göngunni, en að mati ráðuneytisins var erfitt að koma því við vegna ýmissa samverkandi þátta. 

„Ráðuneytið telur hins vegar, eftir á að hyggja, að betur hefði farið á því að einhver af æðstu embættismönnum þjóðarinnar hefði mætt til göngunnar.“

Í yfirlýsingunni segir að íslensk stjórnvöld hafa, sem áður greinir, ítrekað komið samúðarkveðjum og yfirlýsingum um samstöðu og stuðning á framfæri við frönsk stjórnvöld. 

„Skrifaði forsætisráðherra meðal annars starfsbróður sínum, Manuel Valls, sérstakt samúðarskeyti og afhenti sendiherra Frakklands á fundi þeirra hinn 8. janúar sl. Þá var iðnaðar- og viðskiptaráðherra viðstödd samstöðufund við franska sendiráðið síðar þann dag. Forseti Íslands og utanríkisráðherra hafa ennfremur komið á framfæri samúðarkveðjum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×